Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Föstudagur 15. júní 2001 kl. 09:30

17. júní hátíðir á Suðurnesjum

Lýðveldisdagurinn verður haldinn hátíðlegur í öllum bæjarfélögum á Suðurnesjum. Þjóðhátíðarnefndir á hverjum stað hafa lagt sig fram við að gera dagskrána sem fjölbreyttasta. Skemmtikraftar stíga á stokk, heimamenn fá að sýna hæfileika sína í söngavarakeppnum, dansiböll fyrir yngri og eldri kynslóðin, skrúðgöngur, leiktæki, popphljómsveitir, fjöllistamenn og margt fleira. Þjóðhátíðardagurinn í Sandgerði

Þjóðhátíðardagurinn verður haldinn hátíðlegur í Sandgerði að venju. Víðavangshlaup fyrir krakka fædda 1987 og síðar, fer fram kl. 11:00 við Reynisheimilið. Hátíðardagskrá hefst á Vitatorgi kl. 15:00 þar sem boðið verður upp á skemmtiatriði fyrir alla fjölskylduna. Þjóðhátíðarræðuna í ár flytur Jóhann D. Jónsson ferðamálafulltrúi. Veitingahúsið Vitinn mun bjóða upp á glæsilegt kaffihlaðborð.
Kvölddagskrá verður á Vitatorgi og hefst hún kl. 20:00. Þar verða grillaðar pylsur fyrir gesti og gangandi og munu Gummi, Kiddi, Óli og Smári halda uppi fjörinu af sinni alkunnu snilld.
Sandgerðingar og aðrir Suðurnesjamenn eru hvattir til að fjölmenna og gera þjóðhátíðardaginn í Sandgerði að skemmtilegum samverudegi fjölskyldunnar.

Fjölbreytt dagskrá í Reykjanesbæ

Mikið húllumhæ verður í Reykjanesbæ í tilefni 17. júní nú á sunnudaginn. Allir bæjarbúar ættu að finna eitthvað við sitt hæfi þar sem dagskráin er mjög fjölbreytt að þessu sinni. Fyriri hádegi verður mikið um að vera í Grófinni og við Duus húsin. Hátíðarmessa hefst í Keflavíkurkirkju kl. 12:30 og að henni lokinni fer skrúðgangan af stað. Söfn bæjarins verða opin allan daginn, myndlistarsýningar verða opnar bæði á Glóðinni og í Svarta pakkhúsinu og ýmis félög og samtök verða með kaffisölur víða um bæinn. Í skrúðgarðinum verður mikið um að vera fyrir börnin og eftir hádegi verður hátíðardagskrá og skemmtiatriði. Barna- og fjölskylduball verður í Stapa á milli kl. 18-20 og um kvöldið verður kvöldskemmtun á Tjarnargötutorgi þar sem hljómsveitin Buttercup verður í sviðsljósinu.

Karmellurigning og knattspyrna í Grindavík

Það verður líf og fjör í Grindavík á 17. júní. Kl. 13.15 rignir karmellum og fallhlífarstökkvarar sýna listir sínar. Skrúðgangan leggur af stað kl. 13.30 og þá komast allir í hátíðarskap. Síðan hefst hefðbundin hátíðardagskrá; ræður, ávarp fjallkonu, Steinn Erlingsson syngur einsöng og Kammersveit Brimkórsins kemur fram. Leikararnir Bergur Ingólfsson og Benedikt Erlingsson skemmta gestum og fjöllistamaðurinn Bernd Ogrodnik verður með brúðuleik. Gunni og Felix gleðja litlu börnin og söngvakeppni unga fólksins verður um miðjan daginn. Kl. 16 fer fram Intertoto keppnin í knattspyrnu: Grindavík – F.c.Vilash (Azerbaijan). Allir á völlinn! Myndarkonur og -karlar eru hvött til að taka þátt í kökubaksturskeppninni því sigurvegarinn getur unnið 25 þús. kr. Deginum lýkur með kvöldskemmtun þar sem Laddi kemur fram, unglingahópur Brimkórsins og hljómsveitin Citrus frá Grindavík leikur fyrir dansi.

Gleði og glaumur í Garði

Lýðveldisdagur Íslendinga verður haldin hátíðlega í Garði við íþróttamiðstöðina á sunnudaginn kemur. Dagskráin hefst kl. 14 með hátíðarræðu, fánahyllingu og ávarpi fjallkonu. Ungir Garðbúar verða með söng- og dansatriði, ferðaleikhúsið mætir á svæðið og skemmtir yngstu kynslóðinni, Karlakór Keflavíkur hefur upp raust sína og upprennandi söngvarar fá tækifæri til að slá í gegn í Söngvarakeppninni, en hljómsveitin Grænir vinir leika undir. Hin vinsæla hljómsveit Sóldögg leikur síðan fyrir dansi. Börnin munu hafa nóg við að vera en bílalestin ekur um með þau sem vilja, þau geta líka prófað að fara á hestbak, skátarnir sjá um leikbásana og trúðar kitla hláturtaugar hátíðargesta. Grillaðar pylsur, gos og kaffi verður selt á vægu verði.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024