130 manns á sviðinu og fullkomnasta hljóðkerfi landsins
- Lúðrasveitin á 75 ára afmæli á tónleikadaginn.
Alls verða um 130 manns á sviðinu í íþróttahúsi Grindavíkur 22. mars þegar Jónas Sig, Fjallabræður og Lúðrasveitir Vestmannaeyja og Þorlákshafnar stíga á stokk. Að sögn Jarls Sigurgeirssonar, stjórnanda Lúðrasveitar Vestmannaeyja, hefur stærsta, nýjasta og fullkomnasta hljóðkerfi landsins frá HljóðeX verið leigt til þess að koma öllu til skila.
Forsvarsmenn stórtónleikanna komu til Grindavíkur í gær til þess að skoða íþróttahúsið og teikna upp 160 fermetra svið. Tónleikar sem þessir krefjast mikils umstangs enda margir sem koma að. Lúðrasveit Vestmannaeyja, sem heldur einmitt upp á 75 ára afmæli sitt á tónleikadaginn, kemur með allan sinn búnað frá Eyjum. Fjallabræður koma flestir frá Vestfjörðum og svo kemur Lúðrasveit Þorlákshafnar og Jónas Sig.
Að sögn Jarls hentar íþróttahúsið í Grindavík einkar vel fyrir tónleikana og lofar hann frábærum tónleikum sem voru settir sérstaklega saman í tilefni af 40 ára kaupstaðarafmæli Grindavíkur. Lúðrasveitirnar og Jónas Sig. hafa áður verið með tónleika, einnig Lúðrasveitirnar og Fjallabræður en þetta eru fyrstu tónleikarnir sem allir þessir fjórir aðilar koma saman.
Miðasala er í fullum gangi og nú þegar hafa um 150 miðar selt sem þykir gott miðað við að enn er tæpur hálfur mánuður í tónleikana.
Mynd og grein af vef Grindavíkurbæjar.