129 þátttakendur í stærðfræðikeppni
Ekki vantar stærðfræðiáhugann hjá nemendum á Suðurnesjum ef marka má fjölda þátttakenda þegar blásið var til stærðfræðikeppni grunnskólanema á Suðurnesjum á dögunum. 129 nemendur mættu til keppninnar sem haldin var í tólfta sinn af Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur keppninnar er að auka veg stærðfræðinnar og glæða áhuga á henni.
Að þessu sinni tóku 129 nemendur þátt í keppninni, 11 úr Akurskóla, 19 úr Grunnskóla Grindavíkur, 5 úr Gerðaskóla, 8 úr Grunnskólanum í Sandgerði, 22 úr Heiðarskóla, 11 úr Holtaskóla, 35 úr Myllubakkaskóla, 7 úr Njarðvíkurskóla og 11 úr Stóru-Vogaskóla.
Eins undanfarin ár veitti Íslandsbanki þremur efstu í hverjum aldurshópi peningaverðlaun og Verkfræðistofa Suðurnesja gaf þremur efstu í 10. bekk grafíska reiknivél.
Helstu úrslit urðu þau að í 8. bekk sigraði Margrét Dagmar Loftsdóttir, Myllubakkaskóla. Í 9. bekk varð Guðjón Sveinsson, Grunnskóla Grindavíkur, hlutskarpastur. Annar nemandi úr Grindavík, Gunnar Þorsteinsson varð sigurvegari í 10. bekk.
Nánari upplýsingar um úrslitin og keppnina má nálgast á vef FS hér.