12 rétta máltíð á aðfangadagskvöld
Líkt og hjá Íslendingum er þungamiðjan í jólahaldi Pólverja samvera stórfjölskyldunnar og maturinn. Á aðfangadagskvöld er reidd fram 12 rétta fiskmáltíð sem tekur nokkra daga að undirbúa. Svo stóra máltíð tekur langt fram á kvöld að borða því enginn má skorast undan því að borða af öllum réttunum.
Eva Agata Alexdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá MSS, flutti til Íslands frá Póllandi fyrir tæpum áratug. Hún segir marga Pólverja halda í hefðirnar frá heimalandinu, líkt og Íslendingar, sem láta senda sér hangikjöt og laufabrauð til útlanda til að geta haldið íslensk jól. Eva fræddi okkur nánar um það hvernig Pólverjar halda jólin.
Halda fast í matarhefðina
„Aðfangadagur er mesti hátíðardagur jólanna. Þá kemur stórfjölskyldan saman, borðar og á samverustund. Hinir jóladagarnir fara svo í hvíld, afslöppun og endalaust verið að borða,“ segir Eva.
„Pólverjar halda mjög fast í matarhefðirnar frá gamla tímanum en á jólunum er búinn til sérstakur matur sem eingöngu er borðaður við þetta tilefni einu sinni á ári. Að því leiti er þetta ekkert ósvipað og með þorramatinn hjá Íslendingum,“ útskýrir Eva.
Pólsk jólamáltíð eða Wigilia byggist upp á fiskmeti eingöngu ásamt meðlæti. Þar er ekkert kjöt að finna. Á veisluborðinu er m.a. að finna síld, fisk í hlaupi, steiktan fisk í raspi og fisk í sósu og ýmsa meðlætisrétti alls 12 rétti. Daginn eftir, á jóladag, eru borðaðir ýmsir kjötréttir.
Margra daga undirbúningur fyrir jólamáltíðina
Áður en fólk tekur til matar síns er byrjað á Oplatek, eða oplátu og um leið skiptist fólk á heillaóskum um bjarta framtíð og góða heilsu.
Máltíðin byrjar svo á rauðrófusúpu sem heitir Barszcz. Í henni er Uszka, eins konar hveitikoddar sem minna heldst á Ravioli í útliti en þeir eru fylltir með farsi úr villisveppum.
„Þetta er órúlega gott, trúðu mér,“ segir Eva með sælkeraglampa í augunum. „Ég elda þetta reyndar ekki lengur á jólunum. Það er ærið verkefni að búa þetta til og sumt af þessu hráefni er ófáanlegt hér á landi.
Pólverjar hér á Íslandi reyna yfirleitt að halda í þessar hefðir, sem eru mjög sterkar, og reyna þá að búa til svona mat með því hráefni sem fæst hér. Kryddin, sem ekki fást hér á landi, fær fólk þá sent frá Póllandi.“
En hvað með jólamáltíðina sjálfa, það hlýtur að vera mikil vinna og undirbúningur að útbúa 12 rétta jólamáltíð?
„Jú, það er rétt og pólskar húsmæður eru oft orðnar örmagna þegar þessu lýkur. Nota síðustu orkuna til að borða, “ svarar Eva og hlær. „Þær eru heldur ekkert ósvipaðar þeim íslensku hvað varðar jólaundirbúninginn, allt hvítþvegið, skúrað og þrifið hátt og lágt samhliða því að vinna fullan vinnudag og hugsa um börn. En hvað máltíðina varðar tekur undirbúningurinn ekki minna en tvo daga og oftast meira.“
Aukasæti fyrir horfinn ástvin
Sérstakir siðir eru hafðir í heiðri við borðhaldið. Á borðið er lagður hvítur dúkur og undir matarréttina hálmur, sem tákn um jötu Jesúbarnsins. „Við borðið er svo alltaf haft eitt aukasæti fyrir þann sem gæti komið óvænt. Það er líka hugsað t.d. fyrir horfinn ástvin. Auk stórfjölskyldunnar er einstæðingum s.s. úr ættinni, nágranna eða vinnufélaga boðið í mat því það er mjög ríkt í Pólverjum að enginn megi vera einn á jólunum. Það þykir mjög tilhlýðilegt að hafa tólf sæti við borðið sem tákn um lærisveinana en alls ekki þrettán sem er tákn Júdasar og óhappatala að auki. Ef fleiri sitja til borðs má ekki hafa sætafjöldann á oddatölu,“ segir Eva.
Máltíðin hefst ekki á föstum tíma eins og hefð er fyrir hér á landi, heldur þegar stjarnan Gwiazdka birtist á austurhimni og kemur það í hlut barnanna að fylgjast með því. Þau opna síðan jólagjafirnar á aðfangadagskvöld, orðin óþreyjufull eftir langt borðhald því allir verða að borða alla réttina.
Borðað eins lengi og hægt er
„Það er bara borðað eins lengi og hægt er,“ svarar Eva aðspurð um tímalengd borðhaldsins. „Yfirleitt er tekið hlé frá borðhaldi á meðan verið er að opna jólagjafirnar og byrjað aftur seinna um kvöldið. Þetta er afar sérstakur og góður matur sem eingöngu er borðaður einu sinni á ári og þess vegna reynir fólk að njóta hans eins lengi og hægt er. Á miðnætti er síðan farið til kirkju og horft á helgileik.“
Að sögn Evu er mikið um föstur á aðventunni samkvæmt pólskum siðum sem útskýrir kannski hvers vegna sumir hafa stóraukið magamál þegar kemur að jólaborðhaldinu. Á sjálfan aðfangadaginn er fastað fram á kvöld uns sest er að borðum.
Hvað aðventuna sjálfra varðar segir Eva hana nokkuð lágstemmdari hjá Pólverjum en Íslendingum. Ekki sé heldur mikið um stórhug í skreytingum og jólatré eru ekki sett upp og skreytt fyrr en á aðfangadag.
Pólverjar eiga líka sina þjóðtrú tengda jólunum. Á jólanótt eiga dýrin t.d. að geta talað en aðeins þeir hjartahreinu og saklausu geta heyrt mál þeirra.
Jólaskreytingar mega vera uppi til 2. febrúar en þann dag ber fólk kerti til kirkju og sækir blessun. Eftir jólin er Karnival tími þar sem fólk skemmtir sér og dansar, Karnivalið stendur fram að upphafi páskaföstu.
En hvernig segir maður svo Gleðileg jól á pólsku?
Wesolych Swiat Bozego Narodzenia!
-------------------------------------------------
Efri mynd: Eva Agata Alexdóttir.
Neðri mynd: Wigilia, jólaborð að pólskum sið.