1000 gestir á handverkssýningu
1000 gestir mættu á handverkssýningu eldri borgara á Nesvöllum í Reykjanesbæ vikuna 14. - 19. september. Gestir komu víðsvegar að og vakti sýningin mikla lukku.
Jóhanna Arngrímsdóttir, forstöðumaður Tómstundastarfs eldri borgara, sagði bæjarbúa vera duglega að skoða sýninguna en einnig komu góðir gestir frá félagsmiðstöðvum í Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Grindavík og Reykjavík.
Það voru 87 manns sem tóku þátt í sýninguni og voru karlarnir aðallega að sýna útskurð sem gerði mikla lukku að sögn Jóhönnu. Öll handavinna þótti afar vönduð og falleg.
Á meðan á sýningunni stóð voru ýmsar uppákomur s.s. línudans, leikfimisýning, upplestur Birnu Zóphaníasar og Katrín Sigurðardóttir lék píanólög eftir Sigfús Halldórsson.