100 ára afmæli Kvenfélags Grindavíkur fagnað á Bessastöðum
„Félagskonur skrifuðu á blað þau gildi sem þeim fannst best lýsa Kvenfélagi Grindavíkur, út úr því komu orðin kærleikur, gleði og samvinna og prýða þau orð servíettuna,“ segir Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur, en félagið fagnaði 100 ára afmæli föstudaginn 24. nóvember. Búið var að skipuleggja afmælið í íþróttahúsi Grindavíkur en hamfarirnar í Grindavík gerðu þau plön að engu. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og forsetafrúin, Eliza Reid, höfðu boðað komu sína í afmælið en þau gerðu gott úr stöðunni og buðu kvenfélagskonum í staðinn heim á Bessastaði.
Sólveig, eða Solla eins og hún er oftast kölluð, hefur verið formaður kvenfélagsins síðan 2014. „Kvenfélag Grindavíkur var stofnað 24. nóvember árið 1923 af nokkrum konum í barnaskólanum. Í dag eru 103 konur í félaginu en tilgangur þess er að efla samvinnu meðal kvenna í Grindavík og við viljum leggja einstæðingum og/eða fjölskyldum lið sem á einhvern hátt eru hjálparþurfi. Á hverju ári frá stofnun félagsins fyrir 100 árum hefur Kvenfélag Grindavíkur stutt við hin ýmsu málefni í bænum sínum og ekki síst glatt samfélagið sitt með hinum ýmsu viðburðum. Samkvæmt skýrslum Kvenfélagasambands Íslands kemur fram að félagið hefur gefið rúmar tíu milljónir til góðra mála á síðastliðnum fimm árum.
Við vorum búnar að skipuleggja glæsilegt afmæli í íþróttahúsinu í Grindavík. Von var á forsetahjónunum en þau plön fuku út í veður og vind en í staðinn buðu hjónin okkur að halda afmælisveisluna á Bessastöðum. Þar var boðið upp á kaffi, kleinur og pönnukökur. Það voru um 70 konur sem mættu á Bessastaði og áttum við góða stund þar saman með forsetahjónunum, það var gaman að allir heiðursfélagarnir gátu verið með okkur. Við vorum búnar að skipuleggja kvennamessu í Grindavíkurkirkju á sunnudagskvöldinu 26. nóvember þar sem auk þess áttu að vera tónleikar. Við fengum að koma saman í Bessastaðakirkju eftir heimsóknina til forsetahjónanna og þar heiðruðum við þær konur sem urðu 70 ára á árinu, þær fengu gullmerki félagsins fyrir gott og óeigingjarnt starf. Það var Evelyn Adolfsdóttir, mikil listakona og kvenfélagskona í Grindavík, sem hannaði merkið. Einnig var Bjarghildur Jónsdóttir gerð að heiðursfélaga.“
Afmælisblað og servíetta
Glæsilegt 80 síðna afmælisrit er í prentun en kvenfélagskonur létu ekki þar við sitja heldur létu þær hanna afmælisfána og glæsilega servíettu. Fáninn er hannaður af Margréti Ósk H. Hallgrímsdóttur samkvæmt hugmynd Sollu en á honum eru þau hús sem hafa hýst starfsemi kvenfélagsins frá upphafi og Ingibjargarskógurinn við Selskóg. „Svo fengum við allar félagskonur til að skrifa á blað þau gildi sem þeim finnst passa fyrir Kvenfélag Grindavíkur. Úr öllum tillögunum, völdum við þau þrjú gildi sem voru vinsælust; kærleikur, gleði og samvinna. Ég fékk einn heiðursfélaganna, Birnu Óladóttur, til að skrifa þessi orð og sú handskrift er prentuð á servétturnar. Við byrjuðum á að láta prenta á bleikar og hvítar servíettur og gaman frá því að segja að einn vinur Birnu pantaði rauðar með jólasteikinni, að sjálfsögðu verður hægt að fá rauðar líka. Servétturnar rjúka út eins og heitar lummur og verða enn ein flott fjáröflunin hjá Kvenfélagi Grindavíkur.
Við erum líka mjög stoltar af afmælisblaðinu okkar, 80 síðna glæsilegt blað þar sem farið er vel yfir sögu félagsins en í leiðinni er blaðið happdrættismiði. Á þessum örlagaríka föstudegi vorum við að plana jólabingó kvenfélagsins, allir vinningar klárir og okkur var ekkert að vanbúnaði að halda þetta bingó í grunnskólanum en þetta er alltaf ein stærsta fjáröflunin hjá okkur. Við munum halda þetta bingó við fyrsta tækifæri,“ sagði Solla að lokum.