50.000 Knot púðar seldir hjá Design House Stockholm

„Ég gæti ekki verið ánægðari með samstarfið,“ segir Ragnheiður Ösp hönnuður púðans.

„Þau komu hingað á Hönnunar-mars og sáu púðann og í byrjun 2016 var hann kynntur undir þeirra nafni. Ég gæti ekki verið ánægðari með samstarfið, þetta er fyrirtæki sem hefur verið starfandi í 25 ár og selur vörurnar sínar um allan heim. Mér skilst að talan af seldum DHS púðum sé að nálgast 50.000, ég næ ekki alveg að átta mig á þeirri tölu,“ segir Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir vöruhönnuður, en sjö ár eru síðan hún kynnti Knot púðann sem nú prýðir ófá íslensk heimilin, enda sló hann gjörsamlega í gegn á Íslandi en einnig víða erlendis.

„Fyrstu fimm árin fór öll framleiðsla fram á litlu vinnustofunni minni og allt var gert í höndunum. Á tímabili var ég að framleiða og selja til rúmlega 15 landa, þetta var orðið svo svakalegt álag og ég var margsinnis að hugsa um að hætta,“ segir Ragnheiður en eftir að Design House Stockholm óskaði eftir samstarfi tóku þau við erlendri framleiðslu og sölu og hefur það létt álagið mikið á Ragnheiði.

Knot púðinn

Púðinn hlaut Hönnunarverðlaun Grapevine árið 2012 og var tilnefndur til Formex Nova verðlaunanna á sænsku hönnunarvikunni 2015. Eins voru þeir tilnefndir til verðlauna sem besta varan á Formex hátíðinni 2016 í Stokkhólmi. Aðspurð segir Ragnheiður skemmtilegast hafa verið að fara til Stokkhólms og kynnast öðrum hönnuðum sem voru líka tilnefnd. „Annars skiptir eigið álit mig mestu máli þegar kemur að eigin sköpun, enda er maður oftast sjálfur harðasti dómarinn,“ segir Ragnheiður.

Nýjustu vörur Ragnheiðar eru Vær teppin og Hearth kertastjakarnir en síðustu ár hafa umhverfismál verið ofarlega í huga hennar. „Mig langaði að þróa vöru sem væri eins umhverfisvæn í framleiðslu og möguleiki væri á. Teppin eru ofin úr lífrænni bómull hjá fyrirtæki í Svíþjóð sem hefur unnið við vefnað síðan 1692. Þau reka eina umhverfisvænustu textílverksmiðju í heimi og nýta m.a. regnvatn í framleiðsluna. Teppin eru létt, hlý og mjög endingargóð“.

Vær teppin

Teppin kynnti hún í fyrra en mynstrin á þeim endurspegla mælingar frá fjórum veðurstöðvum á Íslandi og sýna breytingar á veðri yfir eitt ár á hverjum stað.
„Kertastjakarnir hafa verið í vinnslu hjá mér örugglega síðustu fjögur ár eða svo. Þeir virka þannig að hver stjaki samanstendur af þremur bitum sem er svo hægt að víxla á milli. Útkoman getur því verið margvísleg hvað varðar liti og form. Eftir prufur í alls konar efni sem voru ekki alveg að gera sig fann ég loksins fyrirtæki í Bandaríkjunum sem steypir þá fyrir mig í litað, óglerjað postulín,“ segir Ragnheiður.

Hearth kertastjakarnir

Ragnheiður er nú komin með annan fótinn í önnur verkefni en hún hóf jógakennaranám í haust og er nú farin að flytja inn orkusteina. „Mér finnst þetta skemmtileg blanda og jógað setur svo gott jafnvægi á stressið og pressuna sem fylgir því að reka eigið fyrirtæki og að skapa og framleiða vörur. Í framhaldinu langar mig að skoða það að tengja þetta saman, þ.e.a.s. jóga og sköpun.“

Í febrúar opnaði Ragnheiður verslunina Sýnishorn ásamt vinkonu sinni, Andreu Fanneyju Jónsdóttur,  textílhönnuði en verslunin er staðsett á vinnustofu þeirra að Sundaborg 1.
„Þar seljum við okkar eigin vörur ásamt vörum annarra íslenskra hönnuða og orkusteinanna. Þar stefnum við á að halda alls kyns uppákomur og fá hönnuði og listamenn í samstarf við okkur. Við leggjum áherslu á handunnar, umhverfisvænar vörur,“ segir Ragnheiður.

Spurð hvers sé að vænta á næstunni segist Ragnheiður nú vinna að verkefni með fyrirtæki í Rúmeníu sem snýr að endurnýtingu efna. „Samstarfið við DHS heldur líka áfram en þar erum við að vinna að því að bæta við fleiri litum og mjög líklega fleiri týpum af púðum.“