,,Bókasöfn eru frábærir staðir“
- Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, er lesandi vikunnar
Ingibjörg Bryndís er með margar bækur á náttborðinu og hefur alltaf lesið mikið. Hún var mjög ánægð þegar bókasöfn hættu að hafa þá reglu að eingöngu mætti hafa þrjár bækur í einu að láni. Hún hefur alltaf lesið mikið og alls konar bækur rata til hennar. Núna er hún með Ferðahandbók Búlgaríu, The book of joy eftir Dalai Lama og Desmond Tutu, Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor Frankl, Sterkari í seinni hálfleik eftir Árelíu Eydísi og bókina Í hálfkæringi og alvöru eftir Árna Björnsson.
Ingibjörg á margar eftirlætisbækur en Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness stendur alltaf upp úr. Einnig nefnir hún Spámennina í Botnleysufirði eftir Kim Leine, Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi og Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren en þá bók segir Ingibjörg að hafi haft mest áhrif á hana. Ingibjörg les reglulega barnabækur og nýtur 3 ára barnabarn hennar góðs af því.
Eftirlætis höfundar Ingibjargar eru nokkrir en henni koma fyrst í hug Halldór Laxness, Astrid Lindgren, Guðrún frá Lundi og sakamálasögur Henning Mankell. Sannsögulegar skáldsögur eru þær bækur sem Ingibjörg les helst og ljóðabækur en hún nokkuð margar sjálf og þær tekur hún aftur og aftur fram og les.
Dalalíf og Íslandsklukkan eru bækur sem allir hefðu gott af því að lesa að mati Ingibjargar. Í þessum bókum er frábært að kynnast lifnaðarháttum fólks áður fyrr og hafa í huga að ekki er langt síðan fólk bjó við allt aðrar aðstæður.
Ingibjörgu finnst best af öllu að lesa í rúminu en hún les líka í bílum, flugvélum, á ferðalögum og á unglingsárunum stundaði hún að lesa í baði við litla hrifningu annarra á heimilinu. ,,Mér finnst líka gott að lesa hérna í Bókasafninu, aðstaðan er svo góð og bókasöfn eru frábærir staðir.“
Ingibjörg mælir með nokkrum bókum í sumarlesturinn; Spámennirnir í Botnleysufirði, Dalalíf og Í seinni hálfleik.
Bókin sem myndi rata með Ingibjörgu á eyðieyju yrði sennilega Íslandsklukkan því hún getur lesið hana aftur og aftur og velt fyrir sér sögunni í ýmsu samhengi.
Í sumar ætlar Ingibjörg að ferðast til Búlgaríu og er að sjálfsögðu farin að kynna sér land og þjóð með Ferðahandbók Búlgaríu. Þá ætlar hún að njóta íslenska sumarsins, ferðast vestur og að sjálfsögðu lesa!
Bókasafn Reykjanesbæjar er opið alla virka daga frá klukkan 09-18 og á laugardögum frá klukkan 11-17. Á heimasíðu safnsins http:sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn er hægt að mæla með Lesanda vikunnar