„Hef rappað frá því ég var fimm ára“

- Viktor Örn lenti í öðru sæti í Rímnaflæði

Íslensk rapptónlist hefur notið mikilla vinsælda hér á landi undanfarin misseri og ef vinsældalistar á landinu eru skoðaðir er rapptónlist ofarlega á flestum þeirra. Það sem hefur þó vakið mesta athygli í rapptextum í dag er að þeir eru á íslensku, þar er leikið með málið, framburðinn er öðruvísi ásamt beygingum en sá hljómur virðist leggjast vel í landann. Viktor Örn Hjálmarsson er nemandi í Grunnskóla Grindavíkur en hann tók á dögunum þátt í Rímnaflæði sem er rappkeppni fyrir nemendur í 8.-10. bekk grunnskólanna og er á vegum Samfés. Einn frægasti rappari landsins, Emmsjé Gauti, sigraði keppnina á sínum tíma. Viktor gerði sér lítið fyrir og lenti í öðru sæti í þeirri keppni, en hann hefur rappað frá því hann var fimm ára gamall og kom fram í fyrsta sinn opinberlega í keppninni.

Annað sætið kom á óvart
Viktor hefur aðallega verið heima hjá sér að semja og rappa og kom fyrst opinberlega fram á Rímnaflæði, annað sætið kom honum á óvart en alls tóku fjórtán keppendur þátt í keppninni. „Ég samdi textann við lagið sjálfur. Hann er eiginlega bara um allt, fortíðina og framtíðina, eiginlega smá grautur. Ég byrjaði að semja textann smátt og smátt en síðasta partinn samdi ég tveimur dögum fyrir keppnina en ég hugsa að ég hafi verið í um viku að semja allt lagið.“

Rappar í skólanum og heima hjá sér
Þrátt fyrir að hafa klárað textann við lagið aðeins tveimur dögum fyrir keppnina þá segir Viktor að það hafi ekki verið neitt mál að læra hann. Hann var rappandi í skólanum, heima hjá sér og svo segir hann það vera minna mál að læra textann ef maður semur hann sjálfur. „Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari keppni en Etna, sem sér um Þrumuna, vildi endilega fá einhvern héðan til að taka þátt því henni langaði svo að fara á keppnina. Ég sagði fyrst í djóki að ég skyldi bara taka þátt, byrjaði að semja smá texta en svo fannst mér textinn svo góður þannig ég ákvað að slá til og fara í keppnina. Vinur minn fann tónlistina við lagið á netinu en ég er núna að semja eitt lag ásamt öðrum og við stefnum að því að búa til tónlistarmyndband með því.“

Styðst við rímorðabók
Rapptextar verða ekki til á einni nóttu en það þarf að hugsa um flæðið, hvernig lagið rími og svo framvegis. „Þegar ég byrja að semja fæ ég stundum einhverja hugmynd sem ég set inn á „notes“ í símanum mínum. Þar fer undirspilið líka inn og svo skrifa ég eitthvað. Ég styðst við rímorðabók á netinu en ef þú slærð inn orð á þeirri síðu þá koma inn fullt af orðum sem ríma við það orð, en það er erfiðara að láta sum orð ríma saman. Núna er ég að reyna að búa til minn eigin rappstíl, er smá æstur en samt ekki. Ég er ekki alveg viss hvort ég ætli að leggja þetta fyrir mig í framtíðinni og tek bara eitt skref í einu. Eftir keppnina hef ég fengið margar spurningar um það hvort ég ætli að taka þátt á næsta ári en ég ætla bara að sjá hvernig staðan verður þá, kannski tek ég þátt aftur, kannski ekki. Sjálfur hlusta ég á Jóa P og Króla, Emmsjé Gauta, Birni og Herra Hnetusmjör, þeir eru uppáhalds rappararnir mínir í dag. Þegar ég var yngri hlustaði ég mikið á Rottweiler hunda og Emmsjé Gauta en Emmsjé Gauti vann einmitt Rímnaflæði fyrir nokkrum árum síðan.“