„Við viljum ekki vorkunn“

-Konráð Ólafur vill að fyrirtæki á Suðurnesjum taki sig taki og ráði fatlað fólk til vinnu

„Þegar ég útskrifaðist af starfsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja var ég hreinlega á endastöð,“ segir Konráð Ólafur Eysteinsson, en hann er greindur með einhverfu, ofvirkni og ADHD og er ósáttur með það að fatlað fólk hafi nánast ekkert val um hvað það starfi við. Í dag hefur Konráð hins vegar starfað í tvö ár hjá Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en hann vill að fleiri fyrirtæki á Suðurnesjum taki sig taki og ráði fatlað fólk í vinnu til sín.

„Okkur er hreinlega vorkennt, en við viljum ekki vorkunn. Alls staðar þar sem ég kem finn ég fyrir lítillækkun. Ég var einu sinni að vinna í Dósaseli, en þar fékk ég 45 þúsund krónur á mánuði. Mamma var þar einn daginn að bíða í röð eftir aðstoð. Þá var kona fyrir framan hana sem spurði fyrir framan alla hvort þetta „þroskahefta pakk“ gæti ekki unnið hraðar. Mamma hefur bara aldrei orðið jafn reið. Við finnum fyrir einhverjum fordómum á hverjum einasta degi og það er erfitt að lifa með þessu. Við reynum að hunsa þetta en það er ekkert alltaf hægt.“

Konráð vill til dæmis að fleiri leikskólar, grunnskólar, matsölustaðir, bakarí og elliheimili ráði fatlað fólk til sín í vinnu. „Mig langaði til dæmis einu sinni að verða bakari og ég fékk að fara í starfsnám í Sigurjónsbakarí. Svo væri ég til í að prófa einhvern tímann að vera gangavörður í grunnskóla, en samt ekki strax því mig langar ekki að hætta hjá Isavia, það er mjög gaman.“

Aðspurður hvernig það sé að vinna hjá Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar segir Konráð vinnuna sína ótrúlega skemmtilega og að honum líði vel þar. „Vinir mínir mæta í vinnuna klukkan sex og það er ekki gaman hjá þeim fyrr en ég mæti,“ segir hann og hlær. „Við erum alltaf að fíflast í hvoru öðru. Við sjáum um að taka saman kerrurnar og fylla á bæklinga. Það er gaman þarna og það er svo mikilvægt að hafa gaman í vinnunni.“ Þegar fólk talar um það við Konráð að hann vinni allar helgar, um jólin og áramótin sem eitthvað slæmt þá bendir Konráð fólki á það að hann fái nú samt borgað fyrir að vinna.

Konráð hefur margsinnis heyrt fólk nota orðin „fatlaður“ og „þroskaheftur“ sem eitthvað niðrandi. „Það var oft notað á mig og það er skelfilegt. Ég vissi ekkert að ég væri fatlaður þegar ég var barn. Ég hugsaði samt með mér að það hlyti að vera eitthvað að, ég hafði það hreinlega ekki í mér að fara upp að næstu manneskju og tala við hana ef mig langaði það.“ Í dag segir Konráð þó að hlutirnir séu breyttir. „Í dag held ég ekki kjafti,“ segir hann hlæjandi.

Það skemmtilegasta sem Konráð gerir er að vera í góðra vina hópi, en hann elskar þar að auki allar boltaíþróttir. „Ég elska bara lífið.“

Ef hann fengi að ráða hvað hann yrði í framtíðinni myndi hann vilja vera lögfræðingur. „Ég er rosaleg félagsvera og get hjálpað fólki. En ég komst ekkert í háskólann, það var ekkert hægt að redda því.“
Aðspurður hvort Konráð telji að hann væri betri starfsmaður ef hann væri ekki með fötlun segir hann svo ekki vera. „Ég hélt það samt alltaf fyrst. Ég sagði við mömmu og pabba að mér liði illa með það að vera fatlaður. En þau sögðu mér alltaf að þau elskuðu mig eins og ég er. Það lítur enginn í fjölskyldunni minni á mig sem fatlaðan einstakling. Fatlað fólk er alveg fólk. Ég er ekkert verri en þú,“ segir hann.

Konráð Ólafur vill hvetja fyrirtækin á Suðurnesjum til að prófa þetta og bætir því við að ef umgjörðin hjá fyrirtækjum sé í lagi geti það hjálpað þeim að hafa fatlað fólk í vinnu.

solborg@vf.is