„Við skuldum þeim sem byggðu grunninn“

- sagði Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í ávarpi á Fullveldishátíð

Fullveldishátíð Suðurnesja var haldin 1. desember í Duus Safnahúsum. Sveitarfélögin á Suðurnesjum stóðu sameiginlega að menningardagskrár í tilefni 100 ára afmælis fullveldis íslensku þjóðarinnar. Um var að ræða blandaða dagskrá af tónlist, sögulegum fróðleik, leikþætti og gamanmálum.

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, setti dagskránna og flutti ávarp þar sem hann sagði m.a.: „Hér komum við saman, íbúar í sveitafélögunum á Suðurnesjum til þess að fagna fullveldi þjóðar. Rétt eins og raunir þær sem yfir landslýð dundu á fullveldisárinu höfum við Suðurnesjamenn aldrei látið deigan síga þótt gefið hafi á bátinn. Við einfaldlega stöndum allt af okkur, brosum framan í storminn og höldum ótrauðir áfram. Þannig er líf okkar allra mótað af þeim raunum sem við tökumst á við dags daglega. Þegar horft er yfir 100 árin frá fullveldi, sjá allir að framtíð okkar er skínandi björt. Aldrei hefur staða okkar verið betri, hvort sem við lítum til okkar nærsamfélags hér á Suðurnesjum eða til landsins okkar í heild. Þeirri stöðu má þakka óþjrótandi vilja okkar til framfara.

Því er ekki úr vegi að horfa til framtíðar. Hvernig verða okkar næstu 100 ár? Hvert stefnum við Íslendingar, hverjar eru okkar vonir og þrár? Á tímum tæknibyltingar, gervigreindar og aukinnar sjálfvirkni er erfitt að sjá yfir hvernig við munum móta framtíð barnanna okkar. Mun okkur bera gæfa til þess að skila landi okkar og auðlindum ólöskuðum í hendurnar á næstu kynslóðum? Erum við að tryggja þeim það samfélag sem mun efla heilsu þeirra og lífsgæði? Erum við að sýna þá fyrirmynd í orðræðu, samskiptum og áherslum sem komandi kynslóðir geta verið stoltar af? Munu þau horfa til okkar og fagna framförum, rétt eins og við stöndum hér í dag og fögnum 100 ára fullveldi lands og þjóðar.

Við skuldum þeim sem byggðu grunninn að velferð okkar að standa okkur vel. Stöndum með þeim gildum sem skiluðu konum kosningarétti 1915, stöndum með þeim gildum sem tryggja öllum mannréttindi hér á landi. Verum áræðin! Þorum að elta drauma okkar. Heiðrum minningu þeirra sem lögðu mikið á sig til þess að við hefðum frelsi og fullveldi með því að tryggja lífshamingju barnanna okkar með samvinnu, sanngirni og manngæsku að leiðarljósi.

Þannig verður framtíð okkar frjálsu og fullvalda þjóðar best tryggð. Aðeins þess vegna munu komandi kynslóðir horfa til okkar með aðdáun er fram líða stundir“.

Eiríkur Hermannson sagnfræðingur flutti einnig erindi þar sem hann dró upp mynd af samfélaginu hér suður með sjó og í Reykjavík árið 1918, þegar Ísland varð fullvalda þjóð í skugga hörmunga eins og spænsku veikinnar sem dró tugi Suðurnesjamanna til dauða á fáeinum dögum. Kom m.a. fram í erindi hans að 3% íbúa í Garði hafi látist úr veikinni og ekki hafi verið hægt að halda jarðarfarir í þrjár vikur, þar sem fólk var of veikt til að taka grafir eða mæta í jarðarfarir.

Karlakór Keflavíkur söng fjögur lög og Leikfélag Keflavíkur flutti leikþátt sem einnig var byggður á atburðum 1918. Ari Eldjárn endaði svo dagskránna með uppistandi og fékk fólk til að hlægja rækilega. Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, kynnti dagskránna sem var styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Fjölmenni var á hátíðinni sem haldin var í bíósal Duus-húsa

Eiríkur Hermannson sagnfræðingur flutti einnig erindi þar sem hann dró upp mynd af samfélaginu hér suður með sjó og í Reykjavík árið 1918.

Karlakór Keflavíkur söng nokkur lög.

Leikfélag Keflavíkur flutti leikþátt sem einnig var byggður á atburðum 1918.