„Það þarf að horfa á hvað einstaklingurinn getur gert“

- Hæfingarstöðin í Reykjanesbæ er með fjölbreytta starfsemi

Hæfingarstöðin í Reykjanesbæ býður upp á dagþjónustu fyrir fatlað fólk á Suðurnesjum, starfsemi hennar er starfrækt á Ásbrú en var starfrækt á Hafnargötu 90 frá árinu 1990. Núverandi húsnæði var þegar til staðar og ráðist var í framkvæmdir innanhúss sem voru aðlagaðar að starfsemi stöðvarinnar.
Jón Kristinn Pétursson, forstöðuþroskaþjálfi Hæfingarstöðvarinnar, segir að húsnæðið sé mjög gott, það sé með gott aðgengi og sniðið að þeirra þörfum. Í því má meðal annars finna jógaherbergi, matsal, litla rækt, vinnuherbergi og fleira.
Verkefni Hæfingarstöðvarinnar eru margvísleg og má meðal annars finna búð, eða Hæfóbúðina, þar sem að listaverk, sultur, baðsölt og fleira er til sölu.

Styðja við færni einstaklingsins
Í dag eru 32 einstaklingar frá sextán ára aldri sem nýta sér þjónustu í dagvistun og hjá Hæfingarstöðinni starfa ellefu manns. Nemendur FS mæta í skólann á morgnana og koma síðan á Hæfingarstöðina þegar skóladegi lýkur. „Þetta er lögboðið atvinnuúrræði, dagþjónusta sem skiptist í tvennt, annars vegar vinnumiðað úrræði og hins vegar félagslegt. Á sama tíma er þetta vinnustaður og félagsmiðstöð,“ segir Jón Kristinn. Markmið Hæfingarstöðvarinnar er að styðja við færni einstaklingsins eða efla færni einstaklinginn til að taka þátt í atvinnulífinu og líka í samfélaginu. Hæfingarstöðin hefur einnig sinnt ýmsum verkefnum frá fyrirtækjum og stofnunum, s.s. pökkunarverkefnum og öðrum tilfallandi verkefnum, en þau eru alltaf opin fyrir því að vinna með eða vera í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.

Margir vilja vinna
Hugmyndafræði Hæfingarstöðvarinnar er sú að þeir einstaklingar sem þangað koma læri hvernig það er að vera á vinnustað, félagsleg færni þeirra er efld og síðan er farið út á vinnumarkaðinn eftir getu og þörfum. „Það eru því miður ekki nógu margir sem hafa farið út á vinnumarkaðinn því það ekki nægilega margt í boði fyrir þennan hóp. Það þarf að líta meira til þess sem einstaklingurinn getur gert í stað þess að einblína á það sem hann getur ekki gert, það er mikilvægt að breyta þeirri hugsun. Það eru margir sem eru í þjónustu hér en gætu samt alveg unnið og hafa áhuga á því, þótt það væri ekki nema hlutastarf. Í draumaheimi væru flestir að vinna samhliða því að vera hér hjá okkur en því miður er það ekki þannig.“   

Prentsmiðja á frumstigi
Fjölbreytt starf fer daglega fram hjá Hæfingarstöðinni og eru starfsmenn duglegir að gera daginn skemmtilegan með fjölbreyttum uppákomum eins og Boccia-mótum, föndri, skapandi starfi, listaverkavinnu og fleira. „Nýjasta viðbótin hjá okkur er prentsmiðja, en Styrktarsjóður í minningu Sigurbjargar safnaði fyrir verkefninu með sölu á skrifstofuvarningi þar sem ágóðinn fór í að kaupa tæki, búnað og efni. Þau seldu pappír út um allt land og notuðu ágóðann af því til kaupanna. Þau eru búin að vera ótrúlega dugleg að safna og núna er verið að þróa þetta og vinna og prentsmiðja Hæfó er farin af stað en er á frumstigi ennþá.“

Hægt að prenta á nánast hvað sem er
Hægt er að prenta á ýmsan varning eða í raun og veru allt sem hægt er að láta sér detta í hug. Í dag er hægt að láta prenta á boli, peysur, bolla, sundpoka, segla og fleira. „Við erum að fikta okkur áfram. Í framtíðinni verðum við með Facebook-síðu þar sem að fólk getur pantað vörur hjá okkur. Við munum sanngjarnt verð og gefum okkur aðeins lengri tíma í hlutina, þetta myndi efla atvinnustarfsemina okkar verulega. Þá yrðu þetta verkefni sem eru atvinnutengd og ágóðinn myndi renna í okkar eigin sjóð sem fjármagnar það sem að sveitarfélögin fjármagna ekki. Eins og til dæmis árshátíð, sem er haldin árlega, sem við fjármögnum með vinnuverkefnum og sölu á vörum. Við förum árlega í vorferð, gefum öllum sem eru hérna páskaegg og jólagjafir, líkt og tíðkast á flestum almennum vinnustöðum.“

Markmiðið er að hafa gaman
Jón Kristinn segir að það sé markmið þeirra að hafa gaman en í dag sé töluverð rólegheit, þar sem að engin vinnuverkefni frá fyrirtækjum séu fyrir hendi. Allir sem dvelji á Hæfingarstöðinni vilji vinna og hafa tilgang með deginum. 
„Við reynum að nýta veðrið og umhverfið á sumrin og gera það sem okkur finnst skemmtilegt að gera en það er markmið okkar, að hafa gaman. Það skiptir öllu máli. Hér er líka frábært starfsfólk sem vinnur gott og ötult starf og sér til þess að starfsemin sé fjölbreytt og skemmtileg.“ Hægt er að skoða Facebook-síðu Hæfingarstöðvarinnar en þar má sjá starfsemi þeirra og margt annað.