„Lykillinn að góðum námsárangri er skipulagning og mikil vinna“

- segir Katrín Lóa Sigurðardóttir sem útskrifaðist með hæstu einkunn frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja

„Ég hef alltaf átt frekar auðvelt með að læra þótt ég hafi auðvitað átt erfiðara með sum fög en önnur,“ segir Katrín Lóa Sigurðardóttir en hún var útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja á dögunum. Katrín Lóa segir að tungumál liggi vel fyrir sér og að hún hafi farið í skiptinám til Spánar eftir fyrsta árið sitt í FS. „Stærðfræði og raungreinar hafa verið í uppáhaldi hjá mér síðustu annirnar en á móti á ég erfiðara með ritgerðir og þannig fög.“

Katrín Lóa segir að lykillinn af góðum námsárangri sé fyrst og fremst skipulagning og vinna en í sumar ætlar hún að vinna á leikjanámskeiði ásamt því að ferðast. „Ég er ekki búin að ákveða það hvort ég ætla strax í nám í haust eða hvort ég fari eftir ár. Ég var búin að hugsa mér að taka árs frí frá námi en nú er ég aðeins að skoða það betur þar sem að ég fékk fría önn í Háskólanum í Reykjavík þegar ég útskrifaðist, segir Katrín Lóa þegar hún er spurð að því hvert hún stefnir eftir sumarið.