„Lífið er eitt ævintýri og maður þarf að taka þátt í því“

- Fjölskylda úr Grindavík fer árlega í rokksiglingu

Grindvíkingarnir og tónlistarfólkið Sólný Pálsdóttir og Sveinn Ari Guðjónsson fóru ásamt elsta syni sínum, Guðjóni og næst yngsta syni þeirra, Sighvati í fyrsta sinn í tónlistarsiglingu fyrir þremur árum síðan. Siglingin er fyrir tónlistarfólk sem leikur Progressive Rock-tónlist og eru um 2500 manns um borð í skemmtiferðaskipi í fimm daga að spila tónlist og ræða saman.

Þau hafa farið saman í siglinguna í þrjú ár og stefna að því að halda því áfram en að eigin sögn er þetta sannkölluð tónlistarveisla. Guðjón þurfti þó að sannfæra foreldra sína töluvert að koma með sér í siglinguna og valdi hann það að fara frekar í hana heldur en útskriftarferð eftir að hann útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands. Þau eru öll sammála því að þau sjá ekki eftir þessari ákvörðun í dag. Víkurfréttir hittu þau í heimastúdíóinu þeirra eitt rigningarkvöld í Grindavík og við fengum þau til að segja okkur frá ferðunum.

Segið okkur aðeins frá ævintýrinu ykkar.

Sveinn: „Hvar á ég að byrja, þetta er í þriðja sinn sem við förum í svona siglingu, með nánast sama fólkinu.“

Guðjón: „Ég sá þessa siglingu auglýsta, ákvað að fara og spurði hvort þau vildu koma með mér. Þetta er tónlistarhátíð á sjó þar sem að tónlistin sem er spiluð er svokallað Progressive rock. Hljómsveitirnar koma héðan og þaðan, margir frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð en það er allur gangur á því. Líka frá Japan, Argentínu eða bara héðan og þaðan. Þetta er svipaður markhópur sem er um borð, við getum a.m.k. orðað það þannig.“

Sveinn: „Hljómsveitirnar og flytjendur þurfa að falla undir þau gildi að vera Progressive Rock-hljómsveitir. Það er í rauninni ákveðið form tónlistar, ekki of þung en sumt svolítið flókið, taktbreytingar og kaflaskipti.“

Guðjón: „Þetta er kannski ákveðið formleysi. Tónlist án takmarkana. Það er ekki mikið um svona hljómsveitir hérna á Íslandi, ég held ég geti talið um tíu hljómsveitir hér á landi.“

Sólný: „Þetta er svolítið sérstakt, þarna safnast saman um 2500 manns sem koma saman um borð, víðsvegar úr heiminum, sem eiga það sameiginlegt að hlusta á þessa tónlist. Ég heyrði það um borð að það væru ekki nema um 5% af heiminum sem hlusta á þessa tónlist en það er samt erfitt að segja til um það. Það eru að minnsta kosti ekki mjög margir. Þannig að það má segja að þetta sé veisla fyrir okkur að fara þangað og hlusta á allar þessar hljómsveitir sem við höfum verið að fylgjast með í mörg ár. Þarna eru bæði eldri hljómsveitir og nýjar sem koma saman, það er ein hljómsveit sem er svokölluð „grunnhljómsveit“ sem heitir Yes sem margir kannast örugglega við sem heldur utan um þetta og fær til sín bönd.“

Sveinn, Guðjón, Sólný og Sighvatur.

Hefur þróast gegnum árin
Dagskrá ferðarinnar eða uppstilling atriða um borð hefur þróast frá því að farið var í fyrstu siglinguna. Í byrjun var spilað frá klukkan tíu á morgnanna til ellefu á kvöldin og síðan settust flytjendur saman við píanóbarinn og spiluðu saman langt fram eftir nóttu. Þannig myndaðist ákveðin partýstemning og á öðru ári var ákveðið að hafa opið svið. Fyrsta árið sem Sólný, Sveinn og Guðjón tóku þátt í, var ákveðið að breyta aftur til og þurfti fólk að sækja um þátttöku. En undirbúningsferlið er ansi skemmtilegt.

Sólný: „Ég ákveð kannski eitthvað ákveðið lag sem mig langar að syngja og óska eftir einhverjum til að spila með mér og þá fæ ég bassaleikara, trommuleikara og svo framvegis til að spila með mér. Svo æfum við okkur heima en það skemmtilega við þetta er að við mætum og hittumst kannski í fyrsta sinn á sviðinu, æfum ekki saman, heldur eru allir í sínu horni að æfa heima áður en þeir mæta um borð. Þetta er ótrúlega magnað og skemmtilegt, svo kemur þú upp á svið og þá gerist eitthvað magnað, það er eiginlega ekki hægt að lýsa því.“

Sveinn: „Já það er gríðarlega mikil spenna í gangi til að sjá hvernig allt gengur.“

Guðjón: „Það gengur ekki alltaf allt upp og það kemur alveg fyrir að menn fara út af sporinu.“

Sólný: „Það sem er skemmtilegt við þetta er að tónlist hjá atvinnufólki er orðin mjög vönduð og flutningur og annað orðið mjög fullkomið eða það mætti segja sem svo, þannig að fegurðin við þetta er að þú mátt gera mistök og eins og þeir feðgar segja að stundum tekst það og stundum ekki.“

Sveinn: „Auðvitað gerir maður allt til að lágmarka mistökin sín og sem betur fer eru þau ekki mörg þegar allt kemur til alls. Svo er það fallega við þetta eins og þarna um borð að tónlistarmenn sem ég hef verið að fylgjast með í mörg ár eru þarna og maður sest bara niður með þeim með kaffibolla og spjallar. Fer yfir tónlistina og plöturnar þeirra. Svo er það líka skemmtilegt að körlunum úr stóru hljómsveitunum finnst prógrammið okkar svo skemmtilegt að þeir eru farnir að spila með okkur þannig að við erum búin að spila með fullt af meðlimum úr stóru hljómsveitunum.“

Sólný: „Það er eiginlega óskráð regla að ef einhver vill syngja eða spila sitt lag úr stærri hljómsveitunum þá leyfir maður þeim það eða þarf að víkja. Maður er kannski búinn að vera æfa það lag heima í langan tíma og svo allt í einu dettur þú út.“

Guðjón: „Já, þegar meðlimur hljómsveitarinnar sem þú ert að spila lag með/eftir vill syngja eða spila þá þarft þú að víkja.“

Sólný og Guðjón saman á sviði. Mynd: Olga Helgadóttir.

Sólný: „Í fyrra þá gerðist það að einn bassaleikari vildi ekki gefa lagið sitt eftir, þannig að það voru tveir bassaleikarar á sviðinu. Þetta er gríðarlega mikil spenna og oft á tíðum pínu hlátur og grátur. Þetta er alveg þannig og eins og til dæmis fyrsta skiptið sem við komum þrjú saman á sviðinu var stór stund. Að koma öll saman á stóru skipi í Karabíska hafinu, við vorum búin að æfa mikið og svo fékk gamla einhvern sviðskrekk, við vorum með mjög flottum trommara úr einu af stóru böndunum þannig að þetta var dálítil spenna hjá okkur fjölskyldunni. Ég ætla alveg að viðurkenna það að sonur minn gaf mér frekar illt auga þegar ég var búin að gera þriðju mistökin á sviðinu. Eftir á var meðal annars sagt að það væri ekki víst að við myndum halda jólin saman a.m.k. miðað við svipinn sem hann sendi mömmu sinni. En við kláruðum þetta með stæl að lokum.“

Hvað eruð þið lengi á siglingu?

Guðjón: „Við erum fimm daga á siglingu.“

Sveinn: „Við förum frá Tampa til Belice, Costa Maya en oft á tíðum förum við ekkert frá borði, það eru tónleikar út um allt og ég held að meirihlutinn fari ekki frá borði, það er svo mikið að gera.“

Stóra sviðið um borð.

Sólný: „Það er kannski líka svolítið skemmtilegt að segja frá því að þetta eru í raun og veru ekki bara tónleikar heldur eru þetta líka svona spjall stundir við hljómsveitirnar eða spurt og svarað. Um tíu á morgnana byrjar spjallstund og þú getur verið að spyrja hetjurnar þínar, sem þú ert búin að vera að fylgja í mörg ár persónulega spurninga og þannig að það er það kannski það sem gerir þetta sérstakt. Sumir hafa hlegið af okkur og spurt hvers vegna við förum í siglingu og förum ekkert í land, af hverju förum við ekki bara á tónleika í landi. Þetta er svolítið sérstakt því við erum þarna saman í fimm daga með öllum þessum listamönnum og fólki eins og okkur sem eru áhugamenn og höfum gaman af því að spila og fáum tækifæri þarna til að flytja tónlist sem við höldum upp á. Þetta er svolítið sérstakt, þú ert kannski að spjalla við gítarleikarann sem þú varst alveg dolfallin yfir að hlusta á kvöldinu áður í morgunkaffinu. Samfélagið er líka svolítið sérstakt og við brosum stundum og segjum að þetta sé svolítið nördasamfélag. En þetta er eiginlega eins og ef fótboltamenn væru um borð og myndu taka leik með okkur.“

Sveinn: „Værum kannski bara að taka leik með Messi eða Ronaldo í hádeginu.“

Sólný: „Það er það sem gerir þetta sérstakt, við erum í þessum heimi. Strákurinn okkar hann Sighvatur sem er sautján ára í dag, kom með okkur fyrir þremur árum og var ekkert að spila á gítar og var ekkert í tónlist. Þetta varð vendipunktur í hans lífi, þarna kviknaði áhugi á tónlist og hann hefur varla sleppt gítarnum síðan, hann tók þátt í fyrra og núna. Hann spilaði einmitt með okkur á búgarðinum núna og um borð í skipinu en í annari siglingunni spilaði hann á búgarðinum.“ 

Sólný, Fjölnir, Sveinn og Sighvatur.

Þið fóruð fimm saman í fjölskyldunni í siglinguna núna, hvernig gekk það?

Guðjón: „Bara mjög vel.“

Sveinn: „Okkur vantar trommara og sá næst yngsti er líklegur kandídat í það.“

Sólný: „Þetta prógram hefur stækkað töluvert frá því að það byrjaði og núna byrjuðum við til dæmis á búgarði.“

Guðjón: „Það eru hjón sem eru hluti af skipulagshópnum í kringum þetta sem búa rétt hjá Tampa á búgarði og þau ákváðu að bjóða þeim sem taka þátt í þessu prógrammi eða þeim sem vildu, tveimur dögum fyrir hátíðina að koma fram, sú hátíð heitir „Prog on the Ranch“. Alls tóku þrjátíu flytjendur þátt í þeirri hátíð en það voru töluvert fleiri að hlusta. Það var búið að setja upp svið og svo er bara spilað, bæði Progressive Rock og önnur tónlist. Síðan voru líka lögin tekin sem eru spiluð á skipinu, þannig að þetta var smá undirbúningur fyrir það og þarna gafst smá tími til þess að æfa fyrir þá sem gátu komið saman.“

Sólný: „Núna var þetta í rauninni fyrir okkur sjö daga tónlistarhátíð og fyrsta daginn á búgarðinum þá voru flutt 57 lög frá tíu um morguninn til ellefu-tólf um kvöldið og ætli við höfum ekki verið um þrjátíu þarna samtals. Við leigðum okkur húsbíl og vorum í honum við þennan búgarð að flytja tónlist og spila. En það er skemmtilegt að segja frá því að þegar Guðjón útskrifast úr Verslunarskóla Íslands og flestir vinir hans voru á leiðinni til Benidorm, þá fann Guðjón þessa ferð og langaði að fara. Hann bað okkur að koma með, en þá var þetta kerfi komið, að þú þurftir að senda inn upptökur sem voru þátttökuskilyrði og við vorum alls ekkert að fara að gera það enda höfðum við ekkert verið í tónlist á okkar seinni árum, þótt við hefðum verið hér áður fyrr svolítið að spila. En Guðjón hætti ekki fyrr en að við samþykktum að senda inn og fer með okkur í sitthvoru lagi upp í stúdíóið sitt, tekur upp og sendir, síðasta kvöldið sem skilafresturinn rann út! Síðan var þetta svolítið skemmtileg helgi því ég fékk tölvupóst og Svenni líka, og ég fékk póst um að ég kæmist inn og var alveg jii, hvað ef ég kemst inn en ekki Svenni.“

Sveinn: „Og ég fékk tölvupóst þar sem að ég var samþykktur í hópinn og ég þorði ekki að segja neitt við Sólný.“

Sólný: „Þannig að það leið eiginlega heill sunnudagur án þess að nokkur þyrði að segja frá en við vorum svo heppin að fá að taka þátt í þessu sem er alveg einstakt að okkar mati því þetta er eiginlega orðin eins og fjölskyldan okkar, fólkið sem er með okkur í siglingunum.“

Feðgarnir æfa sig um borð.

Eignist þið ekki góða vini í gegnum þetta?

Sólný: „Jú, tónlist tengir fólk saman, það skiptir engu máli hver þú ert.“

Sveinn: „Hvort sem þú ert úr stóru hljómsveitunum eða ekki, það eru allir á sama stigi. En það sem er líka svo skemmtilegt núna er að það hefur aldrei verið jafn mikil þátttaka eða viðvera eins og núna hjá stærri köllunum á „djamminu“ okkar þannig að þeir sátu bara í salnum og maður var bara farinn að venjast því að uppáhalds tónlistarmennirnir manns sætu í salnum og væru að fara að hlusta á mann spila. Fyrst var maður nötrandi.“

Sólný: „Fyrsta árið var ég einmitt að syngja lag með hljómsveitinni Yes og var með söngvarann á fremsta bekk og ég viðurkenni það að það var pínu stressandi en þetta snýst ekkert um það að koma, sjá og sigra, þetta snýst meira um að koma upp á svið og hafa gaman. Það er bara það sem þetta snýst um, snýst ekki um heimsfrægð eða að við séum að reyna að verða fræg í útlöndum heldur um þessa gleði og eins og við þekkjum öll, hvernig tónlistin sameinar okkur og við erum þakklát fyrir það að fá að deila þessu áhugamáli með strákunum okkar.“

Það er örugglega ekki algengt að nánast heil fjölskylda fari bara út og taki þátt í svona viðburðum, ekki rétt?

Sveinn: „Nei, nei og ég viðurkenni það alveg að þetta hefur vakið mikla athygli og við erum kölluð „The Vikings“ um borð, víkingafjölskyldan frá Íslandi og auðvitað vekur það athygli að við séum fjögur úr sömu fjölskyldunni í þessu prógrammi að spila.“

Sólný: „Sem er kannski algengara á Íslandi heldur en annars staðar, við þekkjum það á mörgum tónlistarfjölskyldum hér, fólk heldur kannski meira saman. En þetta er náttúrulega alveg einstakt að fá að upplifa það að vera með manninum sínum og sonum sínum að spila og syngja á Karabíska hafinu. Sumir fara í skíðaferðir og þetta er svolítið okkar skíðaferð, við erum mjög þakklát.“

Guðjón: „Fyrir utan það hvað þetta er skemmtilegt.“

Guðjón á sviði. Mynd: Olga Helgadóttir.

Víkkar þetta ekki tengslanetið ykkar í þessum tónlistarheimi, eins og þið sögðuð að þá eru ekki margir í þessari tónlist hér á landi.

Guðjón: „Ég stofnaði hljómsveit frá því á síðasta ári, kynntist þeim sem eru með mér í henni í siglingunni og við erum að vinna að plötu en þeir eru báðir frá Kanada.“

Sveinn: „Það er farið að auglýsa þetta sem fyrsta afkvæmi okkar frá „Late Night Jam Sessions,“ þarna voru leiddir saman strákar frá Kanada og Íslandi og úr varð eining sem er að taka upp plötu.“

Guðjón: Við unnum plötuna bæði hér heima og í Toronto.

Sólný: „Þetta eru trommuleikari og gítarleikari sem hann er að tala um og síðan fengu þeir líka til liðs við sig bassaleikara úr frábærri hljómsveit sem heitir Haken.“

Sveinn: „Haken er einmitt ein af stóru hljómsveitunum um borð.“

Guðjón: „… eða, hún er mjög þekkt innan þessa samfélags.“

Sólný: „Síðan er tæknin líka orðin þannig í dag að Guðjón gat sent honum tölvupóst þar sem þeir voru í samskiptum fyrir plötuna og hann spilaði inn á sjö lög á þessari plötu.“

Guðjón: „Platan hefur ekki enn verið kynnt en hljómsveitin heitir Umæ, svo var ég að gefa út disk sem heitir „Beyond the Night Sky“ með hljómsveitinni „Ring of Gyges“. Við erum allir héðan frá Íslandi í þeirri hljómsveit og hún var stofnuð fyrir fimm árum síðan. Fjórir af fimm meðlimum hennar voru með okkur í síðustu siglingu.“

Sólný: „Þessi diskur er að fá mjög góða dóma innan þessa „Prog“-heims frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Póllandi og Spáni. Þeir vönduðu líka til verks og eru að taka ákvarðanir þessa dagana upp á samninga og annað fyrir tónleikatúr. Það hefur eitt leitt að öðru í öllu þessu ferli og gaman að sjá barn fæðast.“

Guðjón: „Ég er meira og minna í tónlist fyrir utan vinnutíma, ég byrjaði að spila á gítar um fermingu, frekar seint en var búinn að spila á píanó áður.“

Sveinn: „Þú varst náttúrulega líka alinn upp við þessa tónlist.“

Guðjón: „Já ég hlustaði á hana frá unga aldri og enduruppgötvaði hana um fimmtán ára aldurinn, ég byrjaði að semja fyrir um þremur, fjórum árum það efni sem ég er að gefa út í dag en maður var byrjaður að semja fljótlega eftir að maður tók upp gítarinn. En ekkert sem hefur svo sem ratað í útgáfu.“

Sveinn og Sólný á sviðinu um borð.

Hvar sérð þú þig í framtíðinni?

Guðjón: „Ef ég ætti að ráða þá myndi ég vinna sem upptökustjóri, bæði fyrir eigin verkefni og fyrir aðra. Platan okkar var tekin upp í Stúdíó Brautarholti og hún var lokaverkefnið mitt í hljóðtækninámi.“

Hvernig gengur fjölskyldulífið með svona marga hljóðfæraleikara, söngvara og skapandi einstaklinga undir sama þaki?

Sveinn: „Það gengur bara vel, eins og fyrir þetta prógramm á skipinu þá eru menn svolítið í sínu horni að æfa en ég nýt stundum aðstoðar Guðjóns þegar það er eitthvað flókið sem ég þarf að kryfja betur. Þá hjálpar hann mér í gegnum það, en svo komum við saman og prófum að taka lögin, þó við séum ekki að spila þau saman, þá getum við æft þau hér.“

Sólný: „En það er líka bara gaman að segja frá því að Svenni hafði ekki snert bassann í mjög mörg ár þegar þetta kom til, þannig að við erum mjög þakklát Guðjóni fyrir að hafa hvatt okkur í þetta því á þessum þremur árum þá hefur kallinn bætt sig svolítið vel og þetta er eins og með íþróttir og annað að æfingin skapar meistarann. Það er líka svo skemmtilegt að maður finnur það úti í siglingunni, því þar er fólk á öllum aldri að spila og koma fram og að láta draumana sína rætast í tónlist. Það er meira að segja „Prog“-band sem samanstendur bara af konum í dag sem kynntust á skipinu og eru þær allar yfir fimmtugt, þannig að það er aldrei of seint að byrja. Ég er bara rétt að byrja. Ég viðurkenni samt alveg eitt, ég bý náttúrulega ein með sex karlmönnum. Að vera úti með fjórum karlmönnum í húsbíl og síðan um borð í skipinu í pínulítilli káetu, verandi eina konan, að það var komin smá þreyta í lokin í konuna en þeir höfðu ekki mikinn skilning á því að konan þyrfti að græja sig á daginn og mála sig. En þetta er mikið ævintýri og ég hef alltaf sagt að lífið er eitt ævintýri og maður þarf að taka þátt í því. Þetta er ævintýrið okkar og mjög skemmtilegt ævintýri og sameiginlega áhugamálið okkar.“

Ætlið þið aftur á næsta ári?

Öll: „Já.“

Sólný: „Núna ætlar Sighvatur, næst elsti sonur okkar líka að fara í prógrammið á skipinu en hann er orðinn átján ára og má því taka þátt. En það verður spennandi að skrá sig inn í prógrammið fyrir næsta ár en glugginn opnar eftir tvo mánuði og eru flytjendur á mismunandi tímabeltum, þannig að við þurfum líklega að vakna um miðja nótt til þess að ná lögunum sem við viljum flytja.“