„Hestamennskan mín er lífstíll“

- Ólöf Rún elskar sveitina og starfar við tamningar og þjálfun hesta

Ólöf Rún Guðmundsdóttir er ekki eins og flestir jafnaldrar sínir úr Reykjanesbæ, en þessi 26 ára kona býr ein í sumarbústað þar sem hún vinnur við að temja og þjálfa hesta. Ólöf elskar að búa í sveit, en hún býr á Litlalandi í Ásahreppi þar sem hún sinnir þrettán hrossum en eigendur þeirra hafa mjög mismunandi markmið og væntingar um þjálfunina, sem gerir starfið fjölbreytt.

Ákvað níu ára gömul að læra reiðkennslu
Ólöf ólst upp í Reykjanesbæ og eftir að hafa stundað nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja lauk hún BS námi í reiðmennsku og reiðkennslu frá Háskólanum á Hólum. Hestamennska er mikil ástríða hjá Ólöfu sem byrjaði sem barn að fara með fjölskyldunni á Mánagrund. „Ég var níu ára gömul þegar ég tók ákvörðun um að fara á Hóla þannig að það er óhætt að segja að ég hafi ekki verið gömul þegar ég stefndi þessa leið. Hestamennskan mín er lífstíll sem ég lifi og ekki margt annað sem kemst að hjá mér,“ segir Ólöf.Hversdagsleikinn er ólíkur því sem gengur og gerist í þéttbýlinu en Ólöf nýtur sín vel í sveitinni, þar hefur hún dvalið nánast öll sumur síðan hún var fimmtán ára gömul. „Hér er mikið félagslíf og margir af mínum vinum búa hér á Suðurlandi, sérstaklega skólafélagar frá Hólum. Ég finn mikinn mun á því að vera í sveitinni og að búa í bænum, hér í sveitinni er fólk mun duglegra að gefa sér tíma og kíkja í kaffi eða stuttar heimsóknir sem gefur lífinu skemmtilegan lit.“ Ólöf gefur sér ekki mikinn tíma í annað en hestamennsku utan vinnu en stundar líkamsrækt í Kraftbrennslunni á Selfossi og sækir hestatengda viðburði eins og mót og sýningar.

Hestarnir fá mismunandi þjálfun eftir markmiðum eigendanna
Starf Ólafar felst í því að temja og þjálfa hesta en hún leigir aðstöðu fyrir starfsemina á Litlalandi, sem er í eigu hjónanna Guðmundar Gunnarssonar og Þórhöllu Sigurðardóttur sem búa í Keflavík. Alls eru 26 hestar í hesthúsinu og deilir Ólöf aðstöðunni með annarri hestakonu, Birnu Káradóttur, en þær vinna mikið saman. Hinn dæmigerði vinnudagur byrjar á því að gefa hestunum morgungjöf. Eftir það tekur hún stíurnar hjá hestunum og ber undir þá spæni. Þjálfunin fer svo fram fyrir og eftir hádegi og dagurinn endar á kvöldgjöf. „Enginn hestur er eins og er ég því alltaf með mörg ólík verkefni. Þegar eigendur hrossa koma með hestana sína í þjálfun til mín eru markmiðin oft mjög ólík fyrir hvern hest. Sumir vilja að ég geri hrossin þeirra að einfaldari og betri reiðhrossum sem það ætlar sjálft að nota í framtíðinni, aðrir vilja að ég leggi meiri áherslu á að undirbúa hestinn fyrir keppni eða kynbótasýningar. Ég fæ líka oft hesta í þjálfun þar sem markmiðið er að selja þá og finna nýja eigendur þannig það er óhætt að segja að þetta sé mjög fjölbreytt og skemmtilegt starf,“ segir Ólöf Rún.Hestamennskan er nokkuð árstíðarskipt, á veturna og sumrin þjálfar Ólöf hross sem eru að fara annað hvort í keppni eða kynbótasýningar. Á sumrin fer hún líka mikið í hestaferðir með hestana sem hún þjálfar sem er það skemmtilegasta við starfið. Á haustin tekur svo annað tímabil við en þá eru engin mót í gangi. Þá er Ólöf mikið í því að frumtemja ung hross sem ekki hafa fengið knapa áður og einnig er oftast mest um að vera í sölu á hrossum á haustin.

Draumurinn að komast á heimsmeistaramót íslenska hestsins
Sjálf mun Ólöf keppa mikið í vor og sumar og er stærsti viðburður ársins svo Landsmót hestamanna sem verður haldið í Reykjavík í sumar. Ólöf byrjaði að keppa níu ára gömul og fór á fyrsta Landsmótið tíu ára. Eftirminnilegasti árangurinn í yngri flokkum er Íslandsmeistaratitill í fimmgangi unglinga á hryssunni Toppu frá Vatnsholti sem hún á sjálf. „Hugafarið mitt hefur reyndar mikið breyst síðan ég var yngri, þá mældi ég árangurinn minn mikið út frá sigrum eða sætum sem ég lenti í en núna hef ég meira gaman af því að gera það besta úr hverjum hesti sem ég hef í höndunum, frekar en að ná fyrirfram ákveðnum árangri persónulega. Til að útskýra þetta nánar þá er mjög misjafnt hvaða árangri í keppni er hægt að ná á mismunandi hestum og einnig er styrkleiki móta mjög misjafn eftir þátttöku,“ segir Ólöf sem stefnir á að komast í íslenska landsliðið og keppa á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins erlendis en Ólöf hefur einmitt starfað erlendis, við þjálfun og reiðkennslu, á búgarði í Nýja-Sjálandi með íslenska hesta. „Það var virkilega skemmtileg lífsreynsla en ég hef samt ekki mikinn áhuga á því að starfa við hesta í útlöndum því hestamennska eins og hún er á Íslandi heillar mig miklu meira,“ segir Ólöf Rún.