„Eitt skemmtilegasta sumar sem ég hef upplifað“

- segir Hlynur Þór Valsson, kennari og tónlistarmaður

HVERNIG VAR SUMARIÐ 2018? // „Þrátt fyrir allar tilraunir veðurguðanna til að skemma sumarið í ár þá er þetta eitt skemmtilegasta sumar sem ég hef upplifað og stendur þá hæst brúðkaup mitt og Ásdísar Aspar 7. júlí síðastliðin. Við troðfylltum Hvalsneskirkju með vinum og vandamönnum sem sönnuðu að þröngt mega sáttir sitja. Hugsanlega höfum við troðið of mikið því stuttu eftir athöfn var farið í endurbætur á kirkjunni til að styrkja burðarþolið, segja gárungar,“ segir Hlynur Þór Valsson, kennari og tónlistarmaður, um sumarið 2018.
 
„Við unnum í veðurhappdrættinu því veðrið stökkbreyttist úr rigningarsudda yfir í sól og blíðu tveimur klukkustundum fyrir athöfn og nutum við blíðunnar í heljarinnar veislu í samkomuhúsinu í Sandgerði. Frábær dagur sem mun seint renna okkur úr minni.
 
Eftir brúðkaupið skelltum við okkur í skyndi brúðkaupsferð til Danmerkur þar sem sólin gladdi okkur enn meir og fyllti á D-vítamín tankinn.
 
Því miður náðist ekki að halda Snúruna í Sandgerði þetta sumarið vegna anna og veðurs en vonandi fáum við hlýja haustdaga til að bæta það upp, annars mætum við bara tvíefldir næsta sumar“.
 
Hvernig verður Ljósanótt hjá þér?
„Fastir liðir á Ljósanótt eru árgangagangan, súpa hjá foreldrum mínum og flugeldasýningin. Aðalmálið er að sýna sig og sjá aðra og njóta þess að gleðjast saman. Ekki flókið“.