„Eitt mesta grín sem maður hefur upplifað“
Brynjar Þór Gestsson, þjálfari Þróttar, var svekktur eftir 1:1 jafntefli gegn Dalvík/Reynir
Víkurfréttir höfðu tal af Brynjari eftir leik Þróttar gegn Dalvík/Reyni um síðustu helgi, hann var að vonum svekktur eftir misnotaða vítaspyrnu í lok leiks og mjög vafasaman dóm í uppbótatíma. Þróttarar taka á móti Kára á Vogaídýfuvellinum klukkan 14:00 í dag.
– Sælir, djöfuls svekkelsi að misnota víti svona í lokin?
Hann varði það svo sem ágætlega en alltaf fúlt að misnota víti. Við vorum reyndar búnir að fá fullt af færum.
– Hvernig var liðið að standa sig annars?
Við vorum ágætir, þeir skora reyndar þetta mark og það var eftir klaufagang í okkar vörn en það var í eina skiptið sem þeir komust nálægt markinu okkar í þessum leik. Varnarlega vorum við góð og sóknarlega sköpuðum við okkur góð færi, dauðafæri, en vorum svolitlir klaufar á síðasta þriðjungi. Síðasta sendingin klikkaði ansi oft, vorum að koma okkur í fína stöðu en það þarf aðeins að fínpússa það.
– Svona fyrir utan að misnota þetta víti, voru þetta sanngjörn úrslit?
Nei, ég held að þeir séu mjög sáttir við þessi úrslit – sérstaklega eftir steypuna í lokin þegar löglegt mark var dæmt af okkur í uppbótatíma. Eitt mesta grín sem maður hefur upplifað þó ég sé búinn að þjálfa í átján ár. Markmaðurinn þeirra sparkar boltanum í bakið á leikmanni Þróttar og við skorum eftir það, fullkomlega löglegt mark sem einhverra hluta vegna var dæmt af. Þegar maður sér þetta aftur verður maður aðeins pirraður yfir hversu vitlaus dómur þetta er (atvikið má sjá á spilaranum sem fylgir með fréttinni).
– Næst er það Kári heima, hvernig leggst sá leikur í þig?
Ágætlega þrátt fyrir að vera með svolítið þunnskipaðan hóp. Ég held að það séu fjórtán klárir í leikinn eins og staðan er núna, það er ekki gott. Fyrirliðinn meiddur, einn fastur í Danmörku, annar skar sig á fæti um helgin svo það reynir á aðra. Leikurinn leggst ágætlega í mig, leikirnir gegn Kára eru alltaf slagsmál og læti. Þetta snýst bara um að vera með stóran pung og helst svolítið siginn. Menn þurfa bara að vera klárir í slaginn og auðvitað eru þarna fullt af ungum strákum sem taka helling út úr svona leikjum. Það vantar ekkert upp á að Kári er með fullt að góðum fótboltamönnum, gömlum hetjum. Ég held að nánast allir leikirnir í þessari deild verða hörkuleikir, skemmtileg deild.