Zoran segir slæmt að missa Guðmund Steinarsson
Vonast eftir liðstyrk til Keflvíkinga og hrósar ungu leikmönnunum
Keflvíkingar sáu af Guðmundi Steinarssyni til Njarðvíkinga á dögunum. Guðmundur hefur verið máttarstólpi í liði Keflvíkinga um langt skeið og er hann marka- og leikjahæsti leikmaður liðsins í efstu deild frá upphafi. Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga segir mikinn söknuð af Guðmundi og liðið sé nú að leita leiða til að fylla skarð hans. Zoran segir að Keflvíkingar séu með augun opin fyrir leikmönnum sem styrkt geti liðið fyrir næsta sumar.
„Við erum bara að skoða leikmenn eins og staðan er í augnablikinu. Við munum svo taka ákvörðun á næstu dögum,“ segir Zoran. Leikmennirnir sem hafa verið til reynslu hjá Keflvíkingum eru m.a. Njarðvíkingurinn Andri Fannar Freysson og Halldór Kristinn Halldórsson sem leikið hefur með Val síðustu tvö ár í Pepsi-deildinni. Hugsanlega þurfi að fylla í skarð sóknarmannsins Guðmundar Steinarssonar með leikmanni utan Keflavíkurhópsins. Stefnt er að því að bæta við miðjumanni og leikmanni í vörnina. Zoran líst vel á sóknarmanninn Andra Fannar en hann segir hæfileikana vissulega vera til staðar og viðurkennir að hann sé hrifinn af honum sem leikmanni.
„Það er slæmt að missa Guðmund (Steinarsson) en þetta var hans ákvörðun og við verðum að virða hana. Hann var mjög mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Keflvíkingar hafa áður misst leikmenn og aðrir hafa komið í staðinn,“ segir Zoran sem telur nú vera tækifæri fyrir aðra leikmenn að láta ljós sitt skína. Nefnir hann leikmann eins og Hörð Sveinsson sem hann telur að eigi mikið inni.
„Eini staðurinn sem leikmenn geta talað á er á fótboltavellinum,“ segir Zoran og bætir því við að enginn sé með áskrift að byrjunarliðinu.
„Samúel Kári á eftir að ná langt í fótboltanum“
Margir ungir leikmenn hafa fengið að spreyta sig að undanförnu og þar á meðal er Samúel Kári Friðjónsson sem nýlega samdi við enska liðið Reading. Zoran telur að Samúel eigi jafnvel eftir að ná langt í framtíðinni enda fari þar mikið efni. „Ég veit hvað hann getur og ég á allt eins von á því að hann nái langt í fótboltanum.“ Aðrir ungir leikmenn eins og Elías Már Ómarsson hafa einnig verið að leika vel en Zoran segir erfitt að gefa öllum ungu leikmönnum liðsins tækifæri á sama tíma. „Við verðum að fara varlega með þessa ungu stráka en ég er virkilega sáttur við hugafar þeirra og metnað.“
Arnór Ingvi Traustason er genginn aftur til liðs við Keflvíkinga eftir dvöl í Noregi og Zoran fagnar endurkomu miðjumannsins. „Þetta er frábært bæði fyrir okkur og hann. Ég tel að hann muni þroskast hér og jafnvel fara aftur erlendis innan tveggja ára. Hann er hæfileikaríkur en það er ekki nóg. Menn verða að vera með rétta hugarfarið og metnað til að ná skrefi lengra.“
Zoran telur að á leikmannamarkaðnum séu fullt af bitum og margir spennandi kostir. Keflvíkingar eru að líta í kringum sig en Zoran segir félagið ætla að stíga varlega til jarðar í þeim efnum. „Við þurfum leikmenn sem passa að okkar leikstíl og eru til fyrirmyndar jafnt utan vallar sem innan. Við erum ekki með mikið af peningum milli handanna og verðum að leita að leikmönnum sem kosta ekki mikið,“ segir þjálfarinn.
Grindvíkingurinn Ray Anthony Jónsson er nýlega kominn til liðs við Keflavík og hann getur hugsanlega spilað í nokkrum stöðum að mati Zoran. Hann útilokar ekki að leita frekar til nágranna sinna við Þorbjörninn. „Á sínum tíma var Alexander Magnússon leikmaður sem við sóttumst eftir. Hann er samningsbundinn Grindavík en hann vill koma til okkar. Við getum ekkert gert í málinu þar sem við eigum ekki pening til að kaupa upp samninginn hans. Hann er velkominn hingað ef hlutirnir breytast,“ sagði Zoran að lokum.