Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Zoran hefði viljað 3-4 sterka leikmenn
Fimmtudagur 16. maí 2013 kl. 11:54

Zoran hefði viljað 3-4 sterka leikmenn

Engir peningar til í Keflavík

Keflvíkingar sömdu í gær við varnarmanninnn Benis Krasniqi. Benis kemur frá Kosovo en hann er 32 ára gamall varnarmaður sem á að baki feril í neðri deildum Íslands. „Þetta er reyndur leikmaður sem getur leyst margar stöður. Hann býr yfir mikilli reynslu,“ segir Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga en á sama tíma hafa Keflvíkingar lánað nokkra unga leikmenn yfir til nágranna sinna í Njarðvík þar á meðal Kristinn Björnsson og Viktor Smára Hafsteinsson. Óánægjuraddir hafa heyrst frá stuðningsmönnum vegna þessa.

„Kristinn Björnsson hefur verið í Danmörku og það er erfitt fyrir hann að komast inn í þetta hjá okkur. Viktor Smári hefur verið í láni hjá Haukum þar sem hann hefur ekki komist í liðið. Hann vildi fara í Njarðvík og við vildum ekki standa í vegi fyrir því.“ Bakvörðurinn Ray Anthony Jónsson sem kom til liðs við Keflvíkinga fyrir tímabilið er auk þess meiddur og fer í myndatöku innan skamms. Zoran segist ekki vera bjartsýnn á útlitið varðandi Ray. Það sé líka ein ástæða þess að Benis sé fenginn inn í hópinn.
Zoran segir að peningar séu ekki til staðar í Keflavík en hann hefði fyrir tímabilið viljað sjá 3-4 sterka leikmenn koma til félagsins. Sú hefur ekki verið raunin og Zoran segir að liðið hafi í raun misst meira en komið hefur inn og auk þess hafa meiðsli sett strik í reikninginn. Nú sé verið að fylla í skörð þeirra sem fóru á brott. Zoran bætir við að auðvitað sé það undir ungu leikmönnunum komið hvort þeir nái að vinna sér sæti í liðinu en hann leggur þó áherslu á að ekki megi setja of mikla pressu á ungu leikmennina. „Á bekknum hjá okkur eru alltaf leikmenn sem fæddir eru á árunum 1992-95, ég held að sú staða sé ekki hjá öðrum liðum í deildinni. Margir ungir leikmenn eru að leika lykilhlutverk hjá okkur“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vildi glaður notast við 11 unga Keflvíkinga

Þjálfarinn segir að bæði sé erfitt að fá leikmenn af höfuðborgarsvæðinu til liðs við Keflavík. Ástæður fyrir því séu yfirleitt vegna þess að leikmenn kjósi ekki að keyra á milli en auk þess segir Zoran að íslenskir ungir leikmenn séu einfaldlega of dýrir.“

„Auðvitað væri ég glaður að vera með 11 unga Keflvíkinga inn á vellinum, svona er bara fótboltinn í dag. Það væri ekki verra að vera með leikmenn eins og t.d. Óskar Hauksson, Alexander Magnússon, Ingvar Jónsson sem eru heimamenn héðan af svæðinu. Svona er staðan bara. Það þarf líka reynslu í baráttu í efstu deild.“

Zoran segir að erlendir leikmenn séu líka dýrir en viðkomandi leikmaður, Benis Krasniqi hafi kostað félagið sáralítið. „Þetta eru erfiðir tímar en það þýðir ekkert að væla. Það verður bara að berjast áfram og vinna úr því sem við höfum. Það kemur svo bara í ljós hvort þessi leikmannahópur og þjálfari nái settum markmiðum.“
Í kvöld mæta Keflvíkingar Víkingum frá Ólafsvík en þar er á ferðinni mikilvægur leikur enda bæði lið stigalaus eftir fyrstu tvær umferðirnar. „Þetta verður bara „fightingur“ þar sem fallegur fótbolti verður ekki endilega aðalatriðið. Við verðum að fara að fá stig á töfluna, það er mjög mikilvægt fyrir andlegu hliðina,“ sagði þjálfari Keflvíkinga að lokum.