Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Yfirburðir Keflavíkur algerir
Laugardagur 28. ágúst 2004 kl. 19:29

Yfirburðir Keflavíkur algerir

Keflavíkurstúlkur tryggðu sér í dag sæti í úrvalsdeild á næsta leiktímabili með 2-1 sigri á ÍA. Í ár fór úrslitaleikur 1. deildarinnar fram á Varmárvelli í Mosfellsbæ.

Lið Keflavíkur hóf leikinn með vindi en bæði lið voru mjög vör um sig í upphafi leiks. Skagastúlkur voru fyrri til að bretta upp ermarnar með tveimur sláarskotum á stuttum tíma. Þær uppskáru svo erfiði sitt á 20. mínútu þegar Hallbera Gísladóttir kom ÍA í 1-0. Keflvíkingum mistókst að hreinsa boltann úr vörninni og Hallbera gerði vel að ná til knattarins og koma honum í netið með fallegu vinstrifótarskoti.

Eftir þessa köldu vatnsgusu vöknuðu Keflavíkurstúlkur til lífsins og tóku öll völd á vellinum. Guðný Þórðardóttir sem átti frábæran dag í liði Keflavíkur, fékk sendingu inn fyrir vörn ÍA á 31. mínútu og sendi síðan boltann til Ólafar Helgu sem þakkaði fyrir sig með marki. Keflavík 1-1 ÍA og liðin héldu jöfn til leikhlés.

Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari og leikmaður Keflavíkurliðsins, hefur heldur betur lesið yfir hausamótunum á sínum leikmönnum í hléi því yfirburðir Keflavíkur í seinnihálfleik voru algerir. Liðið spilaði boltanum vel sín á milli og átti mörg hættulega færi.

Á 85. mínútu leiksins sliguðst ÍA-stúlkur loks undan sóknarþunga Keflvíkinga. Bergey Sigurðardóttir komst ein upp að endamörkum, sendi boltann fyrir markið þar sem Guðný Þórðardóttir kórónaði glæsilegan leik sinn með marki. Keflavík 2-1 ÍA og þar við sat.

Eins og áður segir þá mun Keflavík spila í úrvalsdeild að ári liðnu en ÍA þarf að fara í umspil við það lið sem endar í 7. sæti úrvalsdeildar. Það lið sem vinnur þann leik mun leika í úrvalsdeild að ári.

Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari Keflavíkur, var að vonum ánægð í leikslok. „Þetta var smá stress fyrstu 20 mínúturnar eða alveg þangað til við fengum markið á okkur. Eftir markið ákváðum við bara að keyra upp hraðann í leiknum og þá tókum við öll völd á vellinum. Við vissum að við áttum að vera í betra formi en ÍA og þegar við loks trúðum því þá yfirspiluðum við þær. Ég er mjög ánægð með þennan árangur og núna fögnum við bara þessum titli og hugsum um úrvalsdeildina seinna,“ sagði Ádís að lokum.

 

 

VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson; Fyrirliðinn Ágústa Jóna Heiðdal lyftir bikarnum á loft.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024