Yfirburðir Keflavíkinga gegn slökum Njarðvíkingum - 2:0
Keflvíkingar unnu stórsigur á Njarðvíkingum í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar í körfubolta í Ljónagryfjunni í kvöld. Þeir erum komnir með annan fótinn í úrslitin eftir að hafa niðurlægt nágranna sína úr Njarðvík. Lokatölur urðu 103-79 og með sigri í þriðju viðureigninni næsta sunnudag eru Keflvíkingar komnir í úrslitin gegn KR eða Snæfelli.
„Það er frábært að sigra hér í Ljónagryfjunni sem er einn erfiðast heimavöllur landsins. Mínir menn börðust allan tímann, unnu vel saman og sýndu mikinn karakter. Það er ljóst að Njarðvíkingar mæta dýrvitlausir í næsta leik þannig að við verðum að halda áfram að leika á sama krafti og klára dæmið heima í næsta leik. Miðað við okkar frammistöðu í fyrstu tveimur leikjunum getum við verið bjartsýnir á að komast í úrslitin en við þurfum að klára dæmið,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflvíkingar eftir leikinn í kvöld.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkinga var fámáll eftir leikinn og sagði leikmenn ekki hafa gert það sem þeir áttu að gera. „Úrslitin í fyrstu tveimur leikjunum hafa engin áhrif á næsta leik,“ sagði Sigurður aðspurður hvort það yrði ekki erfitt að mæta í Keflavík eftir tvö töp.
Það var aðeins í fyrsta leikhlutanum sem Njarðvíkingar léku eins og lið og þá héldu þeir í við Keflvíkinga en voru einu stigi undir eftir fyrsta leikhluta. Keflvíkingar settu í annan gír í öðrum leikhluta og leiddu með 15 stigum í hálfleik 36-51.
Þeir héldu uppteknum hætti í þriðja leikhluta og þegar honum lauk var forystan komin í 25 stig, 52-77 og úrslitin ráðin. Ótrúleg staða í undanúrslitum Íslandsmótins og þegar yfir lauk höfðu Keflvíkingar sigrað með 24 stigum, 79-103.
Gunnar Einarsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru bestir hjá Keflavík og stigahæstir með 26 og 20 stig. Einn besti leikur Ísafjarðartröllsins og Gunnar sýndi enn einu sinni hversu góður leikmaður hann er. Það er ekki hægt að sjá að hann sé aldursforsetinn á vellinum. Hörður Axel var líka mjög góður og gladdi áhorfendur með nokkrum troðslum, oft að því er virtist nokkuð létt. Hann hefur lítið fyrir því að troða boltanum í körfuna. Útlendingarnir, Urule Igbavboa og Draelon Burns voru mjög drjúgir að vanda og skoruðu 17 og 14 stig. Jón Norðdal Hafsteinsson átti fanta góðan leik, hans besti í langan tíma. Á þessari upptalningu er auðvelt að sjá að breiddin er mikil í Keflavík því fleiri komu við sögu þó þeir hafi skorað minna. Stemmningin er góð í hópnum og sjálfstraustið mikið.
Njarðvíkingar eru hreinlega ekki í góðum málum. Þeir eru ekki að leika vel saman. Einstaklingsframtakið ræður ríkjum og oft var sóknin vandræðaleg. Friðrik Stefánsson og Guðmundur Jónsson stóðu upp úr mjög slöku liði í kvöld. Guðmundur byrjaði vel og skoraði mikið í byrjun en náði ekki að halda dampi út leikinn. Friðrik er mjög sterkur í vörn og sókn. Hann tók 12 fráköst og skoraði 13 stig eins og Guðmundur og Nick Bradford. Sá síðastnefndi var ekki nærri því eins góður og í fyrsta leiknum. Jóhann Árni Ólafsson og Magnús Gunnarsson voru ekki með byssurnar rétt stilltar í kvöld, með 9 og 8 stig. Það er ekki viðunandi í svona mikilvægum leik.
Það er því á brattann að sækja fyrir Njarðvíkinga sem hafa nú tapað sjö leikjum í röð í úrslitakeppninni, tveimur núna, tveimur í fyrra og þremur 2008. Í fimm viðureignum í vetur hafa Keflvíkingar unnið fjóra, þrjá með yfirburðum. Njarðvíkingar eru særðir og sjálfstraustið virðist lítið. Miðað við leik liðsins í kvöld og skrykkjótt gengi eftir áramótin þá er erfitt að spá þeim sigri í næsta leik á meðan Keflvíkingar eru í svona miklu stuði. Þeir léku á alls oddi í kvöld og trommusveitin með Jóa drummer og félaga kaffærði áhagendur þeirra grænu og létu vel í sér heyra í kvöld. Það kunnu keflvísku leikmennirnir að meta og tóku oft þátt í fjörinu með handauppréttinum og stuði. Því var ekki að fagna hinum megin og mátti sjá marga súra Njarðvíkinga ganga út úr Ljónagryfjunni áður en leik lauk.
Burns og Bradford í baráttunni í kvöld.
Kristján Rúnar Sigurðsson skorar með Puma sveitina í baksýn.
Pumasveitin í stuði með Keflvíkingum. Efst er Gunnar Einarsson að skora tvö af 26 stigum sínum í leiknum og á næstu mynd er Magnús Gunnarsson að sækja að körfunni með Sigurð Ísafjarðartröll yfir sér.
VF-myndir/Páll Orri.
Texti: Pket.