Yfirburðir ÍRB á Unglingameistaramóti Íslands
Samtals 64 verðlaun í hús
ÍRB vann 64 verðlaun, þar af 27 gull, 26 silfur og 11 brons, á Unglingameistaramóti Íslands í sundi sem fram fór um helgina. Þá var ÍRB eina liðið sem náði nýjum sundmönnum í landslið, sem og eina liðið sem átti sundmann sem setti Íslandsmet á mótinu.
Lið 12 sundmanna á aldrinum 15-20 ára keppti á mótinu auk þess sem þrír yngri sundmenn syntu á mótinu til þess að reyna við landsliðslágmörk.
ÍRB og tvö önnur lið voru með flesta keppendur en Suðurnesjamenn voru með flesta verðlaunahafa á mótinu. Lið SH var með næst flest verðlaun, eða 45 talsins.
Íris Óks Hilmarsdóttir (ÍRB) vann bikarinn fyrir stigahæstu sundin í flokki 15-17 ára og Kristófer Sigurðsson (ÍRB) vann bikarinn fyrir stigahæstu sundin í flokki 18-20 ára. Kristófer synti frábært 200 m skriðsund og náði 693 FINA stigum. Hann náði besta tíma sem var undir lágmörkunum fyrir Mare Nostrum á Spáni og Frakklandi. Hann var því miður 0.29 frá lágmarkinu á NMU í Póllandi.
Ólöf Edda Eðvarðsdóttir úr ÍRB vann 400 m fjórsund mjög sannfærandi og setti í leiðinni nýtt stúlknamet á tímanum 5:02.33 með 707 FINA stig. Með þessu sundi tryggði hún sér sæti á Evrópumeistaramót unglinga sem fram fer í Póllandi í júlí. Íris Ósk Hilmarsdóttir vann svo auðveldlega 200 m baksund á tímanum 2:19.85 með 710 FINA stig og var rétt frá lágmarkinu á Heimsmeistaramót unglinga sem er 2:19.48. Þær stöllur munu því báðar fara á Evrópumeistaramót unglinga.
Svanfríður Steingrímsdóttir (ÍRB) sýndi styrk sinn á mótinu þar sem hún synti aðeins til þess að reyna við lágmark. Hún synti á besta tímanum á mótinu í 200 m bringusundi á 2:43.94 og með 624 FINA stig og tryggði sér með því sæti á EYOF mótið í júlí. Hún fer ásamt liðsfélögum sínum Baldvini Sigmarssyni og Sunnevu Dögg Friðriksdóttur á mótið í Hollandi. Eydís Ósk Kolbeinsdóttir frá ÍRB náði líka lágmarkinu á EYOF í 800 m skriðsundi en Sunneva er hraðasti sundmaðurinn á Íslandi í þessari grein og aðeins einn sundmaður fer á mótið í hverri grein. Eydís og Þröstur, sem náði líka EYOF lágmarki, verða að bíða og sjá hvort þau verði valin og vonandi fleiri úr liðinu til þess að synda á NMÆ sem haldið verður í Reykjavík í júlí.
Íris Ósk Hilmarsdóttir hlaut bikar fyrir stigahæstu sundin í flokki 15-17 ára.
Kristófer Sigurðsson hlaut bikar fyrir stigahæstu sundin í flokki 18-20 ára.