Yfirburðir hjá Keflvíkingum í grannaslagnum
Keflvíkingar gjörsamlega yfirspiluðu granna sína í Grindavík á heimavelli þeirra gulklæddu er þeir unnu stórsigur í Suðurnesjaslagnum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur 4-0 og verður að segjast að sú úrslit gefi algerlega rétta mynd af leiknum, enda sáu Grindvíkingar vart til sólar í leiknum. Heimamenn voru algerlega andlausir og í raun lítið jákvætt hægt að segja um þeirra leik. Tæplega 1000 áhorfendur mættu til leiks á Grindavíkurvöll og voru Keflvíkingar þar ívið fyrirferðameiri líkt og á vellinum.
Ólafur Örn Bjarnason fyrirliði Grindvíkinga sagði frammistöðu sinna manna slaka. „Menn voru ekki tilbúnir í þennan leik. Keflvíkingar voru alltaf tveimur, þremur skrefum á undan okkur. Þó svo að við höfum fengið stig gegn FH þá er það ekki gefið gegn Keflavík, þeir eru alveg jafn góðir og FH. Svekktir er vægt til orða tekið, mönnum líður bara illa og þetta er hreinlega vandræðalegt,“ sagði varnarmaðurinn sterki.
Keflvíkingar voru með algera yfirburði í fyrri hálfleik leiksins og virkuðu virkilega vel undirbúnir. Þeir dældu inn fyrirgjöfum, voru að vinna návígi og þeir virkuðu mun ákveðnari. Frans Elvarsson sem hefur verið að leika vel á undirbúningstímabilinu skoraði fyrsta mark leiksins á 21. mínútu með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig eftir undirbúning Hilmars Geirs. Þessir tveir voru að ólöstuðum menn leiksins hjá Keflvíkingum. Frans var ekki lengi að bæta við öðru marki en hann kláraði þá snyrtilega fram hjá Óskari í marki Grindvíkinga af stuttu færi, sá Guðmundur um undirbúning þar. „Það er ekki oft sem maður setur tvö. Við átum þá alveg á miðjunni í leikum og þetta small allt saman. Við vorum greinilega betur gíraðir í þennan leik,“ sagði markaskorarinn Frans Elvarsson í samtali við Víkurfréttir eftir leik.
Annar ungur peyji af miðjunni náði einnig að komast á blað en þar var á ferðinni Arnór Ingvi Traustason, hinn mjög svo efnilegi miðjumaður með góðu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf frá Hilmari Geir. Staðan var því 3-0 í hálfleik og Grindvíkingar gengu niðurlútir til búningsherbergja.
Grindvíkingar gerðu breytingar í hálfleik og breyttu skipulagi sínu enda höfðu þeir ekki játað sig sigraða. Þeir fengu þó blauta og skítuga tusku í andlitið er Einar Orri Einarsson skoraði með skalla fyrir Keflvíkinga eftir rúmlega mínútu leik í seinni hálfleik, eftir flotta sendingu frá Jóhanni B. Guðmundssyni úr aukaspyrnu. Staðan því 4-0 og leikurinn svo gott sem búinn.
Eftir þetta fjórða mark Keflvíkinga þá færðist deyfð yfir leikinn og bæði lið virtust álíta sem svo að leikurinn væri búinn. Svo var og, fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks nema kannski að Scott Ramsey var nærri því að minnka muninn úr aukaspyrnu, en skot hans hafnaði í utanverðri stönginni.
Fyrsta mark leiksins, Frans Elvarsson á skot fyrir utan sem rataði rétta leið.
Frans leggur hann snyrtilega fram hjá Óskari sem kemur engum vörmum við, 2-0. (Sjá einnig efstu mynd).
Einar Orri stangar boltann í netið.
Frans fagnar hér öðru marki sínu ásamt Guðmundi Steinars.
VF-Myndir: Pket og EJS