Yfirburðasigur Keflavíkur í fyrsta úrslitaleiknum gegn Snæfelli
Keflavík vann öruggan sigur á Snæfelli í fyrstu viðureign úrslita Iceland Express deildarinnar í körfubolta í Toyota höllinni í Keflavik í kvöld. Þegar flautað var til leiksloka munaði 20 stigum á liðunum, 97-77 og var sigurinn síst of stór.
Heimamenn náðu yfirhöndinni strax í byrjun leiks og leiddu með níu stigum eftir fyrsta leikhluta. Sami munur var á liðunum þegar leikurinn var hálfnaður og staðan 53-41. Vörn Hólmara var mjög slök og þá gekk þeim ekki heldur vel í sókninni. Hlynur Bæringsson hélt þeim á floti og skoraði 15 stig en Hörður Axel var búinn að vera mjög heitur hjá sterkum Keflvíkingum með sama stigafjölda.
Hörður hélt uppeknum hætti í byrjun síðari hálfleiks og hrellti Hólmara með þristi og troðslu og munurinn orðinn sautján stig á milli liðanna. Burns og Gunnar Stefánsson héldu stutta þristasýningu og munurinn fór í 23 stig þegar einn leikhluti var eftir. Urule skoraði jafnt og þétt og tók mörg fráköst.
Hafi einhverjum Hólmurum dottið í hug að þeim tækist að ná niður þessum mun þá sáu heimamenn til þess að þessi munur hélst fram í miðan síðasta leikhluta og þá játaði Ingi þjálfari sig sigraðan og gaf bekkjardrengjum séns og sama gerði Guðjón Skúlason.
Lokatölur 97-77, sanngjarn sigur þar sem heimamenn voru betri á öllum sviðum körfuboltans. Það viðurkenndi Hlynur Bæringsson í leikslok og sagði að þeir hefðu bara ekkert ráðið við sterka Keflvíkinga í leiknum. „Við söknuðum auðvitað tveggja leikmanna og nú fá þeir tækifæri til að safna kröftum fyrir leikinn á fimmtudaginn. Það skiptir engu þó við höfum tapað svona stórt. Þessi leikur er búinn og næsti tekur við,“ sagði Hlynur sem skoraði 22 stig, tók 13 fráköst og stal 6 boltum.
Þeir Draelon Burns, Urule Igbavbova og Hörður voru allir með tuttugu stig, Sigurður Þorsteinsson skoraði 11 stig, Gunnar Stefánsson 9 og Einarsson 7.
„Við erum orðnir það sjóaðir að við ofmetnumst ekki af þessum sigri. Það er ljóst að þeir munu mæta dýrvitlausir í Hólminum en það munum við gera líka. Þeir vilja ekki lenda 2:0 undir en við stefnum að því að svo verði eftir fimmtudaginn,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, leikmaður og aðstoðarþjálfari Keflavíkur eftir leikinn í kvöld.
Guðjón Skúlason var sömuleiðis algerlega á jörðinni þó sigurinn hafi verið stór. „Við lékum vel í kvöld og vorum góðir í vörninni á móti þeim og þeir áttu ekkert svar við því. Það er gott að vinna sigur í fyrsta leiknum en við munum mæta einbeittir í Hólminn,“ sagði þjálfari Keflavíkur.
Jón Norðdal Hafsteinsson tróð með tilþrifum.
Sverrir Þór sækir að körfu Hólmara í kvöld, einu sinni sem oftar.
Keflvísku strákarnir voru ánægðir með sína menn í leikslok.
Gunnar Einarsson skoraði sjö stig gegn Hólmurum í kvöld.
VF-myndir/Páll Orri.
Texti: pket.