Yfir 1300 körfuboltakrakkar á Nettómóti
„Miklu meira en körfuboltamót, þó þetta sé orðinn einn stærsti körfuboltaviðburður ársins,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. Yfir þrettán hundruð körfuboltakrakkar á aldrinum sex til tíu ára leggja undir sig Reykjanesbæ dagana 3.-4.mars.
Nettómótið í körfubolta er haldið árlega við góðan orðstýr enda um svo miklu meira en körfuboltamót að ræða. Mótið er orðið að stærsta einstaka íþróttaviðburði ársins í Reykjanesbæ og raun stærsta körfuboltaviðburði á landsvísu ár hvert. Alls koma saman tæplega 240 keppnislið hvaðanæva að af landinu, sem skipuð eru drengjum og stúlkum 10 ára og yngri. Í fyrra voru leiknir alls 548 leikir á meðan á mótinu stóð, á fimmtán völlum í einu.
„Þetta er svo miklu meira en körfuboltamót þó svo að þetta sé orðinn einn stærsti körfuboltaviðburður ársins. Að auki má tala um þetta sem eina stóra fjölskylduhátíð sem hefst klukkan átta að morgni laugardags og stendur yfir til klukkan 16.00 á sunnudegi. Í fyrra voru keppendur um þrettán hundruð talsins og heildarfjöldi gesta hátt í fimm þúsund. Við höfum þess vegna lagt okkur fram um að búa til gott mót sem heldur vel utan um keppendur en ekki síður fjölskyldurnar þeirra sem fylgja með og það hefur tekist gríðarlega vel.
Við hjá Nettó erum reglulega stolt af að taka þátt í þessu stórkostlega verkefni með okkar heimabæ sem og öllu því öfluga fólki sem leggur metnað sinn í að skapa þessa ólýsanlegu stemningu sem ríkir í kringum körfuboltann hérna,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Nettó hefur verið aðal bakhjarl mótsins um árabil og má með sanni segja að Nettó körfuboltamótið hafi fyrir löngu fest sig í sessi. Það er nú haldið í 28. skipti í ár.
Mótið, sem eins og fyrr segir er orðið stærst sinnar tegundar hér á landi, er samstarfsverkefni barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur, Nettó og Reykjanesbæjar.