Yao Ming erfiðastur
Þeir hafa margir leikmennirnir hugsað sig tvisvar um áður en þeir gera atlögu að körfu Njarðvíkinga þegar Egill Jónasson er í teignum en hann er 216 cm á hæð. Nú þegar Páll Kristinsson er farinn frá Njarðvíkingum til Grindavíkur hefur hlutverk Egils óneitanlega aukist.
„Okkur hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu og mér líst bara vel á komandi leiktíð,“ sagði Egill. Aðspurður um hvort erlend lið væru ekki farin að sýna honum áhuga svaraði Egill því að þónokkrar fyrirspurnir hefðu borist. „Það hafa komið fyrirspurnir frá Spáni og bandarískum háskólum og varðandi Evrópuliðin þá er manni boðið að koma og spila með B-liðum félagsins og vinna sig þaðan upp,“ sagði Egill.
Egill fór með íslenska landsliðinu til Kína fyrir skömmu og atti þar kappi við miðherja Houston Rockets, Yao Ming en hann er 230 cm að hæð og vegur 140 kíló. „Hann var mjög erfiður og þetta er í fyrsta skiptið sem ég þarf að líta upp til einhvers á leikvellinum,“ sagði Egill kíminn.
Í fyrra gerði Egill 2,2 stig að meðaltali í leik, varði 35 skot og tók 41 frákast í þeim 20 deildarleikjum sem hann kom inn á. Í ár er hlutverk hans með Njarðvíkurliðinu mun stærra og ljóst að þessar tölur eiga örugglega eftir að breytast í lok komandi leiktímabils.
VF-myndir/ Það er ekki hlaupið að því að standast Agli snúning í háloftunum.