WNBA þjálfarinn alsæl með íslensku stúlkurnar
130 körfuboltastelpur af öllu landinu mættu til Reykjanesbæjar
Yfir 130 áhugasamar og efnilegar körfuboltastelpur mættu á æfingabúðir Jenny Boucek, WNBA þjálfara og fyrrum leikmanns Keflavíkur í TM-höllinni um helgina. Æfingar fóru fram alla helgina en búðirnar voru fyrir stúlkur fæddar árið 2006 og eldri. Stúlkurnar komu alls staðar af landinu og var þétt dagskrá alla helgina þar sem m.a. var boðið upp á fyrirlestra og frábærar æfingar frá Jenny og öðrum þjálfurum í fremstu röð á Íslandi. Að sögn Önnu Maríu Sveinsdóttur fyrrum þjálfara og samherja Jenny hjá Keflavík, þá var þjálfarinn í skýjunum með viðtökurnar og í raun kom henni á óvart hversu góðar íslensku stelpurnar eru. Þær séu tæknilega góðar og taki leiðbeiningum afar vel.
Jenny sem er fyrrum leikmaður í hæsta gæðaflokki í WNBA deildinni og núverandi aðstoðarþjálfari hjá Seattle liðinu í þeirri deild, virðist hafa hrifist mjög af stúlkunum ef marka má tíst sem hún lét frá sér í gær. Þar ýjaði hún að því að yngsta dóttir körfuboltahjónanna Fals Harðarsonar og Margrétar Sturlaugsdóttur, ætti hugsanlega eftir að gera það gott í körfunni. Fleiri myndir frá helginni má nálgast hér á Karfan.is.
„Við þurfum að fylgjast með þessari, hún er leikmaður!“ segir Jenny um hina níu ára gömlu Jönu á Twitter eins og sjá má hér að neðan.
This one needs to be on our watch list, @AlishaValavanis !! She's a baller!!! @seattlestorm pic.twitter.com/OecmqRE0iS
— Jenny Boucek (@jboucek) January 11, 2015
Jenny lék með Keflvíkingum árið 1998 en þá vann liðið alla titla sem voru í boði.