Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Willum Þór vonast til að halda Haraldi hjá Keflavík
Þriðjudagur 5. janúar 2010 kl. 11:52

Willum Þór vonast til að halda Haraldi hjá Keflavík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Willum Þór Þórsson segir mikla samkeppni  um stöður í Keflavíkurliðinu og virðist ekki á þeim buxuum að leita eftir nýjum leikmönnum. Hann vonast þó til að halda Haraldi Guðmundssyni sem hann telur efni í leiðtoga.

Viðtalil við Willum birtist á keflavik.is og birtist hér orðrétt:

Það hefur varla farið fram hjá fólki að það er kominn nýr kall í brúna hjá Keflavík. Willum Þór Þórsson heitir kappinn og þarf ekki kynna frekar. Við skelltum nokkrum spurningum á Willum svona áður en æfingar og keppni hefjast af fullum krafti eftir stutt jólafrí.


Nú ert þú búinn að vera þrjá mánuði í Keflavík. Hvernig hafa æfingar gengið og hvernig er andinn í hópnum?
Við höfum æft vel og spilað mikið. Markmiðið var að skoða yngri kynslóðina og hafa þeir borið hitann og þungann af leikjunum. Mikið kapp og fínn andi.

Eru menn að koma á óvart og hverjir þá?
Það er mjög efnileg kynslóð leikmanna að stíga sín fyrstu skref og ég á von á því að þeir láti að sér kveða á næstu árum...

Þessir gömlu eru ekkert að koma á óvart, er það nokkuð?
Þeir hafa nú ekki fengið mikil tækifæri til að skína enn sem komið er en nokkrir þeirra risu upp í nýafstöðnu jólamóti og minntu á sig...

Einhver meiðsl á mönnum?
Það eru allir æfingafærir þegar æfingar hefjast 4. janúar. Slíka stöðu ber að þakka faglegum vinnubrögðum og natni Fals sjúkraþjálfara og samviskusemi þeirra leikmanna sem hafa átt í meiðslum.

Áttu eftir að bæta við mannskap. Ef svo er í þá hvaða stöður?
Metnaðarfullt félag eins og Keflavík sem hefur það að markmiði að vera ávallt í fremstu röð er alltaf á vaktinni með öfluga leikmenn. Ég met stöðuna þannig í dag að það þarf að vera mjög sterkur leikmaður vegna þess að það er samkeppni um allar stöður í liðinu í dag. Lið þróast og mótast í gegnum æfingar og leiki og við erum ekkert að stökkva til.

Ég verð þó að segja að ég bind miklar vonir við að við semjum við Harald Guðmundsson og að við fáum að njóta krafta hans á komandi árum. Efni í leiðtoga sem eflir okkur í sumar og ekki síður í að miðla af reynslu til yngri leikmanna og hjálpa þannig til við mótun þeirra.

Mun Keflavík spila bullandi sóknarbolta?
Varnarleikur vinnur mót og sóknarleikur vinnur leiki. Þarna þarf að vera gott jafnvægi og styrkur leikmanna og liðs að nýtast í skipulagi svo árangur megi nást.

Nú á Keflavík eina bestu stuðningsmannasveit á landinu, hefurðu hitt eitthvað af genginu og hvaða væntingar gerir þú til þeirra?
Já. ég tek undir það. Þeir hafa heillað mig í gegnum tíðina og eru sannkallaður styrkur fyrir liðið. Ég auðvitað vonast svo sannarlega til að þeir haldi áfram sínum dygga stuðningi við liðið og verði áfram þessir skemmtikraftar sem þeir hafa verið. Algerlega ómetanlegt framlag til Keflavíkurliðsins og fótboltans.

Varðandi kröfur til stuðningsmanna þá lít ég á þá sem hluta af liðsheildinni og þær kröfur sem ég geri til þeirra er þær sömu og til liðsins; að ganga jákvæðir og glaðir til leiks og bera ávallt virðingu fyrir félaginu og andstæðingunum. Þá er ekki þar með sagt að tilfinningahiti og innlifun séu ekki með í farteskinu þvert á móti..., þess vegna er stuðningsmannasveit Keflavíkur sú besta...

Nú tókst þú með þér hingað tvo af þínum nánustu samstarfsmönnum gegn um tíðina þá Þór og Björgvin. Hvernig gæjar eru þetta?
Sannir.

Nú ert þú búinn að þjálfa lengi. Hver er sá besti sem þú hefur þjálfað?
Ég hef verið mjög heppinn á mínum þjálfarferli og notið þeirra forréttinda að þjálfa marga af bestu leikmönnum okkar þjóðar en... Ég vona að hann leynist í Keflavíkurliðinu.

Hvað leikmenn í Pepsí deildinni fannst þér standa sig best?
Margir góðir; t.d. Atlarnir og Matthías Vilhjálmsson í FH og Bjarni Guðjónsson og Grétar Sigfinnur í KR.

Nú hafa Íslandsmeistarar FH verið feykilega sterkir undanfarin ár. Er hægt að klekkja á þeim og þá hvernig?
FH er með frábært fótboltalið og til eftirbreytni hvernig staðið er að málum þar á bæ. Mæta þeim af virðingu en á eigin forsendum.

Deildarbikarinn byrjar eftir einn og hálfan mánuð, tilhlökkun?
Já, ég er fullur tilhlökkunar fyrir fyrstu æfingu 4. janúar og fyrsta æfingaleikinn 9. janúar á móti Leikni í Reykjaneshöllinnni. Og Deildarbikarinn auðvitað. Það er mót sem ég myndi vilja sjá umfangsmeira, fleiri leiki og Evrópusæti.

Verður farið í æfingaferð í vor?
Já. Vinnusemi stjórnar, liðstjórnar, stuðningsmanna/velgjörðarmanna og ekki síst leikmanna gerir okkur kleift að haga undirbúningi eins og best verður á kosið.

Hvernig líst þér á að spilað sé á gervigrasi í Pepsídeildinni?
Get lifað með einum leik en Íslandsmót og gervigras fara ekki saman...

Eitthvað að lokum. Willum?
GLEÐILEGT NÝTT ÁR og ÁFRAM KEFLAVÍK!

Þór og Björgvin, samstarfsmenn Willums fyldu honum til Keflavíkur.