Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Watson: Gæti ekki beðið um betri liðsfélaga
Miðvikudagur 12. desember 2007 kl. 00:40

Watson: Gæti ekki beðið um betri liðsfélaga

TaKesha Watson er besti leikmaður fyrstu níu umferðanna í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Watson er vel að viðurkenningunni komin en hún hefur farið á kostum í Keflavíkurliðinu það sem af er Íslandsmótinu. Watson gerir að jafnaði 30,2 stig í leik, tekur 7,7 fráköst, gefur 6,3 stoðendingar og stelur 3,2 boltum að meðaltali í leik. Glæsilegar tölur hjá Watson sem hefur þrátt fyrir allt verið að glíma við meiðsli rétt eins og í fyrra.

 

,,Ég er sjálfsörugg um þessar mundir og veit að liðsfélagar mínir bera mikið traust til mín og legg ég mikið kapp á það að standa mig vel í öllum leikjum fyrir Keflavík,” sagði Watson. ,,Ég gæti ekki beðið um betri liðsfélaga sem koma með mikinn kraft inn í hópinn og það er mikill heiður að fá að leika fyrir Keflavík,” sagði Watson sem segir markmið Keflavíkur þau sömu og liðið setti sér á síðustu leiktíð.

 

,,Við höfum sömu markmið og í fyrra þar sem okkur tókst ekki að ná markmiðum okkar á síðustu leiktíð en við ætlum okkur að ná þeim núna,” sagði Watson en það er ekkert leyndarmál að Keflvíkingar ætla sér að vinna alla þá titla sem í boði eru þessa leiktíðina eftir að hafa ósjaldan mátt sætta sig við silfrið í fyrra.

 

VF-Mynd/ [email protected]Watson með verðlaunagripinn sem besti leikmaður fyrstu níu umferðanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024