Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Watson fór mikinn í Síkinu - Sigur Grindavíkur aldrei í hættu
Föstudagur 10. febrúar 2012 kl. 10:00

Watson fór mikinn í Síkinu - Sigur Grindavíkur aldrei í hættu


Topplið Grindavíkur mætti norður í land í gærkvöldi og lék gegn Tindastólsmönnum í Síkinu á Sauðárkróki. Það var greinilegt frá byrjun að gestirnir ætluðu ekki að láta síðasta leik endurtaka sig, alla vega ekki fyrstu 39 mínúturnar. Þeir mættu með hörku vörn og Giordan Watson gríðarlega sprækan í sókninni.

Tindastóll komst í 4 – 2 í byrjun en síðan bitu gestirnir frá sér og skoruðu 9 stig í röð og sýndu að þeir voru mættir til leiks. Í stöðunni 6 – 13 tók Bárður leikhlé fyrir heimamenn og stappaði stálinu í sína menn. Það bar árangur því Stólarnir minnkuðu muninn í 16 – 19 þegar ein og hálf mínúta var eftir. En aftur komu níu stig í röð frá Grindavík og leiddu þeir 16 – 28 að loknum fyrsta leikhluta. Giordan Watson hafði varla klikkað á skoti í fjórðungnum enda kominn með 13 stig.

Liðin skiptust á körfum lengstum í öðrum leikhluta, mestur fór munurinn í 16 stig, fyrst í stöðunni 20 – 36 og svo í lok hans, en staðan í hálfleik var 40 – 56. Grindvíkingar spiluðu góða vörn í fyrri hálfleik og þurftu Stólarnir að hafa mikið fyrir hverju stigi. Hinu megin var Watson áfram sjóðheitur fyrir gestina og kominn með 27 stig í hálfleik. Hjá Tindastóli var skarð fyrir skildi að bæði Þröstur Leó og Helgi Freyr meiddust í fyrri hálfleik og léku ekkert meira í leiknum.

Grindvíkingar héldu áfram að bæta við í síðari hálfleik og voru komnir með 20 stiga forskot um miðjan þriðja leikhluta. Þá fóru þriggja stiga skotin að detta hjá heimamönnum sem settu niður 6 slík í leikhlutanum. Ekki dugði það þó til að minnka bilið mikið og undir lok fjórðungsins áttu gestirnir 8 – 0 sprett og þegar síðasti leikhlutinn var bara eftir var staðan 67 – 89 og útlitið orðið svart fyrir Tindastól. Stólarnir reyndu að mæta gestunum með meiri hörku í síðari hálfleik, en uppskáru lítið annað en villur og þótti á köflum heldur halla á sig í dómgæslunni.

Stólarnir virtust ekki ætla að ógna Grindavík í upphafi fjórða leikhluta, en þegar rúmar þrjá mínútur voru búnar mátti litlu muna að upp úr syði í leiknum. Eftir einhverjar stympingar á miðjum vellinum fékk Ólafur Ólafsson tæknivillu og smá pirringur gerði vart við sig hjá gestunum. Tindastóll skoraði næstu sex stig og staðan 79 – 91 og smá von enn. Helgi Jónas tók þá leikhlé og róaði sína menn niður sem hleyptu heimamönnum ekki mikið nær næstu mínúturnar. Þegar rúmar tvær mínútur lifðu af leiknum var munurinn aftur kominn í 17 stig, staðan 83 – 100. Stólarnir reyndu síðan sitt ýtrasta til að minnka muninn síðustu mínúturnar með góðum stuðningi áhorfenda, en sigur Grindavíkur var aldrei í hættu og lokatölur 96 – 105.

Grindavík: Watson 40, Bullock 22, Sigurður 15, Páll Axel 10, Þorleifur 10, síðan voru Ómar, Pettinella, Jóhann Árni og Ólafur allir með 2 stig hver.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024