Vonbrigði í Alþjóðarallinu
Rallkapparnir Borgar Ólafsson og Jón Bjarni Hrólfsson áttu ekki góðu gengi að fagna í Alþjóðarallinu sem fram fór um síðustu helgi. Á öðrum keppnisdegi misstu félagarnir olíu og urðu að hverfa frá keppni en þeir gátu með góðum árangri náð Íslandsmeistaratitlinum í 2000cc.
„Við vorum fyrstir þegar bíllinn byrjar að missa olíu,“ sagði Jón Bjarni í samtali við Víkurfréttir. „Þetta voru töluverð vonbrigið, sérstaklega í ljósi þess að við höfum unnið fjögur fyrstu röllin í okkar flokki fyrir Alþjóðarallið. Við erum miklir keppnismenn en urðum að bíta í þetta súra epli um helgina,“ sagði Jón Bjarni en þó er ekki öll von úti enn fyrir þá félaga. Jón og Borgar eru efstir í 2000cc flokki en í 4. sæti í heildarkeppninni í rallinu. Þá vantar aðeins um 2 stig til þess að verða Íslandsmeistarar í 2000cc flokki en hafa misst af lestinni í heilarkeppninni í rallinu.
Í heildarkeppninni eru Jón og Borgar í 4. sæti um þessar mundir en með hámarksárangri í síðasta rallinu 16. september geta þeir náð 2. sæti. Í þeirri keppni hafa Daníel og Ásta Sigurðarbörn þegar hlotið titilinn og er Ásta fyrsta konan á landinu til að ná þeim árangri.
Líklegast þykir að keppt verði á Suðurnesjum í rallinu 16. september og þá geta Jón og Borgað fagnað titlinum á heimavelli ef allt gengur að óskum. „Bílvélin okkar er komin upp í Kistufell og verður klár fyrir næsta rall, það verður farið rækilega yfir hana og athugað hvort eitthvað hafi skemmst við að keyra bílinn hálf olíulausan,“ sagði Jón að lokum.
[email protected]