Vonast til að Bonneau leiki með liðinu
Njarðvíkurliðið að smella saman - Kanamálin leyst
Njarðvíkingar hafa loks fundið lausn á leikmannamálum sínum með því að ráða fyrrum Stjörnumanninn Jeremy Atkinson til liðsins. Teitur Örlygsson aðstoðarþjálfari liðsins segist himinlifandi með að fá Atkinson og telur að hann komi til með að styrkja Njarðvíkinga töluvert.
„Við vorum búnir að pæla í honum fyrr í vetur og núna þegar hitt gekk ekki upp þá var hann fyrsti kostur hjá okkur.“
Atkinson var ekki samningsbundinn neinu liði en Stjörnumenn ákváðu að semja ekki við hann aftur. Teitur segist ekki vita af hverju svo sé en hann hafi fengið bestu meðmæli frá Justin Shouse leikmanni Stjörnunnar sem Teitur þekkir vel. „Hann er það sem við köllum „energy player“ og það er einmitt það sem okkur vantar. Það er kraftur í honum og það sem mestu skiptir er að hann leggur sig 100% fram í öllum leikjum og berst vel.“
Nú virðist sem loks sé komin mynd á Njarðvíkurliðið og verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir slípast saman á næstunni. „Við erum himinlifandi að vera komnir með fullt lið og það er að detta í febrúar. Tíminn sem skiptir máli er eftir og við ætlum að þjappa okkur saman og láta þetta ganga.“
Glöggir áhorfendur hafa tekið eftir því að Stefan Bonneau er ennþá mikið í kringum liðið þrátt fyrir að glíma við meiðsli sem gera það að verkum að hann er frá út tímabilið. Teitur segir að hann æfi með liðinu og að Njarðvíkingar bindi vonir við að hann leiki með liðinu á næsta tímabili.
„Hann er hér í endurhæfingu og æfir eins og skepna. Síðasti mánuður er búinn að vera mjög jákvæður hvað varðar bataferlið og eru allir ánægðir með það. Hann á ennþá langt í langt og má ekki fara framúr sér. Við þurfum að hægja á honum stundum en hann er frekar ofvirkur,“ segir Teitur sem telur að Bonneau verði líklega orðinn heill heilsu í sumar.
Bonneau er að vinna í því að styrkja á sér fæturna en annars er hann í ágætis standi að sögn þjálfarans. Teitur segir að Njarðvíkingar reikni ekki með því að hann verði leikfær á þessu tímabili. Ástæðan fyrir því að hann sé hér ennþá og í endurhæfingu er sú að Njarðvíkingar horfa til næsta tímabils og vona að hann muni þá leika með liðinu.
„Kannski nær hann sér 100% og þá er spennandi að vera með hann sem Kana á næsta ári. Það er ekkert ákveðið í þeim málum en honum líður vel hérna og okkur líður vel með hann í kringum okkur. Ef að kraftaverk myndi gerast þá myndi ég velja hann í liðið,“ segir Teitur að lokum léttur í bragði.