Vonaði bara að ég myndi ekki gera mig að fífli
– segir Matthías Örn Friðriksson, þrefaldur Íslandsmeistari í pílukasti, sem mætti ríkjandi heimsmeistara á Nordic Darts Masters pílumótinu síðasta föstudag.
Matthías Örn Friðriksson byrjaði að stunda pílukast fyrir tíu árum síðan en þá var hann leikmaður með knattspyrnuliði Grindavíkur. „Þegar fótboltaferlinum lauk setti ég þann tíma sem hafði farið í fótboltann í píluna og hef einbeitt mér að henni síðan,“ segir Matthías sem er í Pílufélagi Grindavíkur og jafnframt formaður Íslenska pílukastsambandsins.
Stórt skref fyrir íþróttina á Íslandi
Matthías og fleiri íslenskir pílukastarar hafa verið að keppa á Nordic & Baltic Pro Tour-mótaröðinni og með góðum árangri þar ávann Matthías sér keppnisrétt á Nordic Darts Masters þar sem hann mætti hinum skoska og skrautlega Peter „Snakebite“ Wright sem er núverandi heimsmeistari í greininni.
Var ekki svolítið ógnvekjandi að mæta heimsmeistaranum í frumrauninni á stóra sviðinu?
„Þetta var stórkostleg lífsreynsla,“ segir Matthías. „Mér leið vel fyrir leikinn og á sviðinu en þegar ég byrjaði að kasta var eins og ég væri að taka þátt í mínu fyrsta móti. Ég var miklu stressaðri en ég átti von á, höndin skalf og ég hitti illa – spilaði langt undir minni getu.
Eftir leikinn var púlsinn á mér í 140, það var eins og ég hefði tekið góða rispu í ræktinni,“ segir Matti og hlær.
Matthías mætti ofjarli sínum í viðureigninni gegn heimsmeistaranum en auk þess að hitta sjálfur illa þá sýndi Peter Wright enga miskunn og gekk á lagið. Hann var með hæsta meðaltal keppenda þetta kvöld og vann leikinn 6:0.
„Hann er náttúrlega ótrúlega góður og svo var hann líka að hitta vel. Ég hefði viljað veita honum smá samkeppni en náði aldrei að setja neina pressu á hann. Hann gekk á lagið og kláraði leikinn of auðveldlega,“ segir Matthías og bætir við; „en þetta er bara einn leikur fyrir mig en frábært fyrir íslenska pílu. Nú geta íslenskir pílukastarar séð að þetta er vel hægt, með ástundun getum við náð árangri og keppt gegn þeim bestu.“
Uppsker eins og hann sáir
Matthías hefur orðið Íslandsmeistari síðustu þrjú ár og sýnir stöðugar framfarir. Pétur Rúðrik Guðmundsson, landsliðsþjálfari U18 landsliðs Íslands, sagði í samtali við Víkurfréttir fyrir leikinn mikilvæga að um væri að ræða stórkostlegt tækifæri fyrir íslenska pílu. „Matti hefur lagt hart að sér síðustu ár, er þrefaldur Íslandsmeistari, og nú er hann að uppskera eins og hann hefur sáð,“ sagði Pétur um félaga sinn.