Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Voga-Þróttur upp um deild eftir sigur á ÍH
Þróttarar fögnuðu vel og innilega eins og sjá má á myndunum og myndskeiðinu.
Fimmtudagur 10. september 2015 kl. 11:33

Voga-Þróttur upp um deild eftir sigur á ÍH

Þróttur í Vogum tryggði sér sæti í 3. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu þegar liðið sigraði ÍH 5-2 á heimavelli í gærkvöldi.  Fyrri úrslitaleik liðanna um sæti í 3. deild lauk með 2-2 jafntefli.
Þróttarar léku eins og þeir sem valdið hafa og skoruðu fimm flott mörk gegn tveimur hjá ÍH. Fyrstu fjögur mörkin voru skoruð af tveimur „Öndrum“. Andri Gíslason kom Þrótti yfir á fyrstu mínútu leiksins og gaf tóninn fyrir heimamenn en nafni hans Magnússon hjá ÍH jafnaði á 21. mín. Það stóð stutt yfir því Andri var aftur á ferðinni á 25. mín. og tíu mínútum svaraði nafni hans með góðu marki, 2-2 var staðan í hálfleik.

Í síðari hálfleik tóku Vogamenn hins vegar öll völd og skoruðu þrjú mörk, fyrst Páll Guðmundsson úr víti á 59. mín, Kristinn A. Hjartarson á 80. mín og síðan Ragnar Valberg Sigurjónsson á 95. mín. Lokatölur 5-2, sætur sigur hjá heimamönnum sem nú spila í 3. deild í fyrsta sinn.

Fyrir í 3. deild eru lið Reynis úr Sandgerði og Víðis í Garði. Nái Njarðvíkingar ekki að halda haus í lokin gæti hlutskipti þeirra orðið 3. deildin á næsta ári. Þá yrði deildin skipuð 4 liðum frá Suðurnesjum. Það yrði saga til næsta bæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024