Vitum að við vinnum vel saman
Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn sem aðstoðarlandsliðsþjálfari hjá íslenska karlalandsliðinu í körfuknattleik. Friðrik Ingi tekur við af nafna sínum Friðriki Ragnarssyni sem aðstoðarþjálfari. Friðrik er jafnframt þjálfari Grindavíkur í Iceland Express deild karla.
Íslenska landsliðið stendur í ströngu þessar stundirnar við æfingar fyrir Norðurlandamótið sem fram fer í Finnlandi í ágústbyrjun. ,,Ég kem kannski núna að þessu pínulítið afslappaðri en áður,” sagði Friðrik Ingi en hann hefur áður þjálfað íslenska landsliðið. ,,Ég er orðinn pínulítið eldri og reyndari. Við Sigurður höfum unnið saman áður og þekkjumst vel og vitum það alveg að við getum unnið vel saman,” sagði Friðrik Ingi.
,,Við vorum búnir að ræða mikið saman og á endanum varð af því að Friðrik var ráðinn. Það er mikill metnaður í gangi og við viljum bara fá bestu mennina til okkar og teljum okkur heppna að hafa fengið Friðrik til liðsins,” sagði Sigurður Ingimundarson, landsliðsþjálfari.
Fyrsti leikur íslenska liðsins í Norðurlandamótinu verður gegn heimamönnum, Finnum, þann 2. ágúst kl. 19:00.
VF-mynd/ [email protected] - Sigurður Ingimundarson og Friðrik Ingi Rúnarsson á blaðamannafundinum í dag þar sem tilkynnt var um ráðningu Friðriks.