VISA-Bikarinn: Keflavík mætir Blikum í undanúrslitum
Keflvíkingar mæta Breiðabliki í undanúrslitum VISA-bikars karla í knattspyrnu, en dregið var í höfuðstöðvum KSÍ fyrir stundu. Í hinum leiknum eigast við Fram og KR, en allir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli.
Keflvíkingar státa af góðum árangri í bikarkeppninni undanfarin ár þar sem þeir sigruðu árin 1997, 2004 og 2006. Þeir lögðu Íslandsmeistara FH í 8-liða úrslitum og eiga fulla möguleika á að fara alla leið, en Blikar eru með gott lið og stefnir því í spennandi og skemmtilegan leik, alla vegana ef litið er til leiks liðanna í Pepsi-deildinni fyrr í sumar, en honum lauk með 4-4 jafntefli á Kópavogsvelli.
Leikur Keflavíkur og Breiðabliks fer fram sunnudaginn 13. september, en leikur KR og Fram er daginn áður. Úrslitaleikurinn sjálfur fer svo fram laugardaginn 3. október, auðvitað á Laugardalsvelli.
VF-mynd/elg – Símun Samuelsen var sjóðheitur í leiknum gegn FH.