Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Vinnusigur hjá Keflavík í Grindavík - Jóhann Birnir skoraði sigurmarkið
Mánudagur 17. maí 2010 kl. 23:21

Vinnusigur hjá Keflavík í Grindavík - Jóhann Birnir skoraði sigurmarkið

„Þetta gat náttúrulega ekki verið sætara, koma inn á og skora sigurmark gegn Grindavík á útivelli,“ sagði Jóhann B. Guðmundsson eftir sigur Keflvíkinga á UMFG í Grindavík í kvöld. Með sigrinum komust Keflvíkingar á toppinn í Pepsi-deildinni í knattspyrnu með Fylkismönnum en þessi lið mætast á grasvellinum í Njarðvík á fimmtudaginn.


Grindvíkingar komu Keflvíkingum á óvart þegar þeir stilltu upp fimm manna varnarlínu og gestirnir voru lengi að átta sig á því og voru í vandræðum með að skapa sér færi í fyrri hálfleik. Aðeins eitt færi sá dagsins ljós í fyrri hálfleiknum þegar Magnús Þórir Matthíasson var nálægt því að skora en Óskar Pétursson, markvörður heimamanna varði glæsilega. Magnús átti tvö önnur skot og var frískastur Keflvíkinga í sóknartilburðum. Grindvíkingar vörðust vel en áttu fá tilþrif í sókninni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Síðari hálfleikur var mun fjörugri og bæði lið áttu ágæt færi. Jóhann B. kom inn á hjá Keflavík á 74. Mínútu og setti strax mark sitt á leikinn. Sjö mínútum síðar áttu Keflvíkingar góða sókn. Boltinn barst yfir til Guðjóns Árna Antoníusonar sem lék á varnarmann Grindavíkur og óð inn að miðjum teig, gaf hann svo inn að miðri vítateigslínu þar sem Jóhann tók við honum og skaut með vinstri fæti í bláhornið vinstra megin, glæsilegt mark, 0:1. Jóhann átti síðan skalla stuttu síðar en rétt á undan áttu heimamenn góða sókn þar sem Jósef K. Jósefsson á skot sem Ómar Jóhannsson varði.

Heilt yfir voru Keflvíkingar betri og hættulegri í sóknartilburðum sínum þó þeir hafi ekki leikið eins vel og í Kópavogi í fyrstu umferð. Grindvíkingar léku skipulega og agað og stöðvuðu margar tilraunir Keflvíkinga.

Lúkas Kostic, þjálfari Grindvíkinga sagði margt jákvætt í leik þeirra þó svo hann væri aldrei ánægður með tap. „Þetta var mun betra en í fyrstu umferðinni. Keflvíkingar eru með mjög sterkt lið en þessi leikur hefði með smá heppni getað endað með okkar sigri“.

Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflvíkur var mjög ánægur með sigurinn. „Þeir komu okkur á óvart með fimm manna varnarlínu og við vorum lengi að átta okkur á því. Með þolinmæði tókst okkur að klára dæmið og ég er mjög ánægður með það hjá strákunum,“ sagði Willum.

Willum sagði þetta vinnusigur og undir það er hægt að taka. Leikurinn bauð ekki upp á mikla skemmtan í fyrri hálfleik en fjörið var meira í þeim síðari. Magnús Þórir Matthíasson var góður í jöfnu liði Keflvíkinga, Guðmundur Steinarsson var ógnandi og vörnin traust þar sem Guðjón Árni var bestur meðal jafninga. Jóhann kom svo inná, sá og sigraði, ef svo má segja.


Grindvíkingar voru óheppnir að tapa leiknum og jafntefli hefði ekki verið ósanngjörn úrslit. Þeir söknuðu tveggja sterkra leikmanna, Auðuns Helgasonar og Gilles Mbang Ondos. Orri Freyr Hjaltalín, Jósef K. Jósefsson og Ray Anthony voru bestir í jöfnu Grindavíkurliði.

Á myndinni er Jóhann Birnir búinn að skjóta, stuttu síðar lá boltinn í netinu. Sjá jafnframt videoviðtal við kappann og markið.