Vinnur Örn Ævar í ellefta sinn í Leirunni? - Guðmundur Rúnar er í forystu
Yfir tvöhundruð kylfingar taka þátt í meistaramóti Golfklúbbs Suðurnesja og lýkur því í dag. Sannkölluð rjómablíða hefur verið alla vikuna en mótið hófst á mánudag.
Það er spennandi keppni meðal þeirra bestu í meistaraflokki karla en þar hefur Guðmundur Rúnar Hallgrímsson forystu en hann er á 7 höggum undir pari og á tvö högg á Örn Ævar Hjartarson, tífaldan GS meistara en hann lék á besta skori mótsins til þessa í gær, á fimm undir pari eða 67 höggum eftir að hafa verið á parinu fyrstu tvo dagana. Guðmundur hefur leikið mjög jafnt golf en hann hefur tvisvar orðið klúbbmeistari GS. Þriðji er Atli Elíasson á 2 höggum undir pari.
Í meistaraflokki kvenna er Karen Guðnadóttir með örugga forystu á Heiði Björk Friðbjörnsdóttur en þær eru aðeins tvær í flokknum.
Keppni lýkur að auki í dag í 3., 2. og 1. flokki karla en er lokið í 4. og 5. flokki, öldungaflokkum karla og kvenna, 1. og 2. flokki kvenna og barna- og unglingaflokkum.
Hólmsvöllur hefur skartað sínu fegursta en til þess hefur líka þurft að vökva völlinn í átta klukkustundir á sólarhring en það fer fram aðallega á kvöldin og nóttinni. Mikil veðurblíða hefur verið að undanförnu og lítil úrkoma og hafa kylfingar fagnað því og fjölmennt út á golfvellina. Sums staðar getur það þó orðið til trafala þar sem þurrkurinn getur orðið of mikill.
Heiður Friðbjörnsdóttir og Karen Guðnadóttir á 16. flöt í blíðunni í gærkvöldi. Á efstu myndinni má sjá Gunnar Jóhannsson, vallarstjóra gera nýja holu á 18. flötinni á hefðbundnum stað. Þarna munu úrslit hugsanlega ráðast í dag.
Jón Norðdal Hafsteinsson körfuboltakappi úr Keflavík er eins og fleiri íþróttamenn orðinn heltekinn af golfinu. Hér slær hann gott högg inn á18. flöt.
Skókaupmaðurinn Hermann Helgason púttar á 18. flötinni í gær.