„Viljum ná einstökum árangri“
ÍRB náði frábærum árangri á nýafstöðnu Íslandsmóti í 25 metra laug. Liðið hlaut Hvatningarverðlaun ÍSS, en þau eru veitt félaginu fyrir öflugt unglingastarf og uppbyggingu ungs liðs. Þá hlaut Anthony D. Kattan, yfirþjálfari liðsins, titilinn Unglingaþjálfari ársins 2011. Jóhanna Júlía Júlíusdóttir vann þá 200m fjórsund. Fjöldi innanfélagsmeta féll einnig um helgina og margir voru að standa sig vel og bæta tíma sína verulega. Víkurfréttir litu við á æfingu hjá krökkunum í vikunni og tók yfirþjálfarann og efnilega afreksmenn tali.
„Við setjum af stað sérstakan afrekshóp þar sem þú verður að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að komast þangað inn. Þar fylgjumst við með mörgum þáttum sem þú verður að standa þig í. Ef þú gerir það þá ertu að ná árangri í sundinu, það er nokkuð víst. Þetta er eitthvað sem er gert á heimsvísu og við höfum verið að koma á fót hjá okkur,“ segir Anthony Kattan hinn nýsjálenski yfirþjálfari hjá ÍRB. Þetta segir hann hafa verið mikið stökk fyrir suma hérlendis en þó sé ekki verið að þræla sundmönnunum út, þvert á móti sé þeim boðin besta hugsanlega þjálfun sem er í boði hérlendis.
Nú um helgina náðu ÍRB-liðar frábærum árangri á Íslandsmótinu í 25 metra laug og Anthony segir að aldrei í sögu félagsins hafi jafnmargir verið að bæta sinn persónulega besta árangur. Bætingin hafi verið um 10% frá því í fyrra sem er virkilega góður árangur. „Það eru 4 stórmót á hverju ári og nú í ár eru þau sennilega bara 3. Mótið sem fór fram um helgina er opið og því skiptir það ekki máli hversu gamall þú ert, þú þarft að keppa gegn öllum. T.d. var Jóhanna Júlía að sigra þrátt fyrir að vera 15 ára að keppa gegn fólki sem er mörgum árum eldri en hún,“ segir Anthony.
Anthony segir framtíðina því vera afar bjarta hjá félaginu og var liðið verðlaunað sérstaklega í lok mótsins um síðustu helgi. „Foreldri úr öðru liði kom meira að segja upp að mér og sagði að breytingin á liði okkar á undanförnu ári væri alveg einstök. Það er einmitt markmið sem við settum okkur þegar ég kom fyrst hingað, við vildum ná einstökum árangri. Það hefur kostað mikla vinnu og foreldrar hafa stutt vel við bakið á okkur.“
Hjá félaginu er reynt að tjalda öllu til og margir krakkarnir stunda jóga, cross-fit og eru með nuddara og næringarfræðinga sem aðstoða þau en sú þjónusta er niðurgreidd eða þá að iðkendur borga brúsann. „Við reynum að veita krökkunum allt sem hægt er til þess að halda þeim hraustum og í sem bestu formi.“
Meira í boði fyrir sundmennina
Fylgir þessu þá aukinn kostnaður?
„ÍRB er ekki dýrasta félagið en það sem er aðal vandamálið hér er að stuðningur við félagið frá bæði bænum og fyrirtækjum hefur minnkað töluvert. Bærinn niðurgreiðir ekkert fyrir okkur. Þannig var það þó fyrir nokkrum árum og þá var fjárhagslega byrðin ekki eins mikil á iðkendum og foreldrum. Nú leggjast útgjöldin á foreldra og að einhverju leyti á fyrirtæki en þó hefur það minnkað töluvert á undanförnum árum. Einnig stöndum við sjálf fyrir söfnunum eins og venja er. Því miður eftir mikið tap á rekstrinum síðasta ár þá urðum við að setja eitthvað af þeirri byrði á foreldrana. Á móti reyndum við því að bjóða upp á meira fyrir sundmennina okkar. Allir fá núna meiri tíma í lauginni og því er fólk að fá alveg jafn mikið fyrir sama gildi. Hjá okkur er heldur enginn falinn kostnaður og það kostar ekkert aukalega að fara á eitthvað ákveðið mót eins og í mörgum íþróttum, nema það sé erlendis auðvitað.“
Vill að fólk sé að fá eitthvað út úr þessu
„Við fækkuðum líka hópunum hjá okkur þar sem þátttakendur voru ekki nógu margir í sumum hópunum en um leið höfum við dregið aðeins úr kostnaðinum. Við höfum misst einhverja úr íþróttinni en það er aðallega vegna þess að þeir krakkar eru í öðrum íþróttum á sama tíma og eitthvað verður stundum að sitja á hakanum. Við erum með mikið af krökkum sem hafa brennandi áhuga og vilja ná árangri og við höfum séð mikinn mun á þátttökunni í mótunum og áhuginn virðist vera mikill. Ég vil frekar hafa einhvern hjá félaginu sem er að fá eitthvað út úr þessu, er að njóta þess að æfa með okkur og er að bæta sig sem sundmaður og manneskja um leið. Félagið er því aðeins minna en það var en við getum sinnt þeim sem eru hjá félaginu mun betur.
Hafa krakkarnir bætt sig mikið frá því að þú komst hingað fyrir rúmu ári síðan?
„Alveg stórkostlega. Munurinn er alveg gríðarlegur og mjög sjáanlegur. Okkar lið er ekki bara að bæta sig, heldur er sund á Íslandi í mikilli sókn. Ég tel það vera vegna þess að samkeppnin er jöfn og að aukast mikið. Við erum að leggja sérstaklega mikið á okkur. Á aldursflokkamótinu fyrr á þessu ári þá var okkur spáð síðasta sæti en á endanum fór það svo að við sigruðum á mótinu, þvert á allar spár. Þetta gerðum við án þess að vera með sundmenn í elsta flokknum, frá 17-18 ára nema tvær stelpur. Þar vorum við að tapa mikið af stigum sem við þurftum svo að vinna upp með yngri sundmönnum okkar. En það tókst og sýnir bara hversu sterkir þessir ungu sundmenn okkar eru í raun og veru,“ segir Anthony.
Gaf leiklistina upp á bátinn
Anthony sem er 28 ára gamall er frá Nýja-Sjálandi en hann kom hingað fyrir 18 mánuðum til þess að þjálfa. Áður hafði hann náð gríðarlega góðum árangri í heimalandi sínu en skömmu áður en hann kom til Íslands þá hafði hann stutta viðkomu í Hong Kong þar sem hann starfaði sem sundþjálfari. Sjálfur var hann góður sundmaður en hann byrjaði að þjálfa þegar hann var 17 ára en þá var hann að safna sér pening til þess að komst í virtan leiklistarskóla í Bandaríkjunum sem hann hafði fengið inngöngu í. Honum bauðst að vinna sem þjálfari 8 klukkustundir á viku en fljótlega var hann farinn að vinna 40 tíma vinnuvikur. Hann varð fljótt ágætis þjálfari og hafði gaman af en hann var enn með þá flugu í hausnum að reyna fyrir sér í leiklistarskólanum í New York. „Þegar ég kom til Bandaríkjanna þá líkaði mér ekkert svo vel við leiklistina og saknaði þess fljótlega að vera að þjálfa. Svo þegar ég kom heim til Nýja-Sjálands í eitt skiptið þá ákvað ég að fara ekki aftur til Bandaríkjanna. Það var of dýrt til þess að eyða peningum í eitthvað sem ég hafði ekki það mikla ástríðu fyrir.“
Mikill keppnismaður
Hann ákvað því að skella sér í skóla á heimaslóðum og tók samhliða viðskipta- og íþróttafræði þar sem hann útskrifaðist með hæstu einkunn í báðum fögum. Samhliða námi hóf hann að þjálfa aftur og vildi komast með fingurna í aukna samkeppni, því að eigin sögn er Anthony afar mikill keppnismaður. „Ég fékk því starf hjá fyrrum þjálfara mínum við það að þjálfa sundmenn fyrir ólympíuleikana. Þar varð ég svo yfirþjálfari yngri flokkanna og náði góðum árangri.“ Síðasta árið hans unnu sundmenn hans nánast allt sem hægt var að vinna og þá var hann að útskrifast úr skólanum. „Ég var 25 ára og hugsaði með mér að mig langaði í nýja áskorun.“ Til þess að ná betri árangri heima fyrir þurfti Anthony beinlínis að taka stöðu þjálfara sem hann hafði unnið með og þekkti vel en einungis voru 3-4 þjálfarar ofar honum í goggunarröðinni í Nýja-Sjálandi og margir af þeim meðal bestu þjálfara heims og með mikla reynslu.
Gúgglaði Ísland
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að koma til Íslands?
„Það var nokkuð áhugavert. Ég var að þjálfa í Hong Kong en var ekkert sérlega ánægður með þróun mála þar. Það var ekkert að því að búa þar en stjórnin hjá félaginu var ekki alveg með þann metnað sem hentaði mér. Ég var svo bara í strætó að skoða símann minn og var að leita mér að starfi í Ástralíu og þar inni á milli sá ég auglýst eftir þjálfara á Íslandi. Þar stóð að aðstæðurnar væru flottar og svo var þetta tækifæri til þess að vera aðalþjálfari. Svo hugsaði ég bara að þetta væri nú Ísland og hætti að hugsa um það. Svo kom upp frekara ósætti þar sem ég var og ég ákvað að sækja bara um þetta starf á Íslandi. Ég vissi ekki mikið um landið eða um sundíþróttina þar, ég gúgglaði mikið á þessum tíma,“ segir hann og hlær.
„Svo vorum ég og þeir hjá ÍRB komin í samband og ræddum málin okkar á milli og mig langaði að skoða aðstæður, en ég held að ég hafi verið einn af tíu umsækjendum, ég bjóst því ekkert við að fá starfið. Ég heyrði svo frá fulltrúa ÍRB þegar ég var á sundráðstefnu í Nýja-Sjálandi og hann sagði að þeir vildu ráða mig í starfið en þeir hefðu ekki efni á að fljúga mér þangað til þess að skoða aðstæður, en það vildi ég endilega gera. Ég ákvað því að fljúga sjálfur og kanna aðstæðurnar. Fyrst var ég ekki á þeim buxunum að taka við liðinu, enginn af krökkunum kom og gaf sig á tal við mig og í þjálfun er mjög mikilvægt að eiga góð samskipti. Daginn eftir voru þau svo byrjuð að tala. Ég fór svo með þeim út á land og sá landið, mér líkaði strax vel við það og fólkið lét mig finnast ég vera mjög velkominn og á endanum ákvað ég að láta slag standa.“
Hvernig líkar þér annars við Ísland?
„Þetta er öðruvísi. Það eru sumir dagar sem ég hugsa, „af hverju er ég hér,“ en þar sem liðið er að ná svona frábærum árangri og mig langar að ná enn lengra með liðið þá er það það eina sem skiptir máli og fær mig til að vera hér áfram.
Erum með besta liðið á landinu
Baldvin Sigmarsson og Jóhanna Júlía Júlíusdóttir náðu bæði frábærum árangri um helgina og voru þau að bæta tíma sína mikið. „Ég var að bæta mig mikið í 400 metra fjórsundi og í 200 metra flugsundi,“ segir Baldvin en hann bætti sig um 17 og 9 sekúndur í þessum greinum sem er ansi hreint góður árangur. Hann þakkar árangurinn þrotlausar æfingar undanfarið. „Ég er búinn að bæta mig svakalega síðan Anthony kom til okkar. Við erum að synda miklu meira og hugum meira að tækninni,“ bætir hann við.
Að sögn þeirra Baldvins og Jóhönnu er Anthony alveg hörku þjálfari og þau telja sig heppin að fá slíkan þjálfara hingað. „Liðið okkar er svo ungt og það eru mikil kynslóðaskipti í gangi hjá okkur.“ Þegar blaðamaður varpar fram þeirri spurningu um hverjir séu með besta liðið á landinu í dag þá stendur ekki á svörunum. „Það erum við,“ segja þau án þess að blikna. „Þannig mun það sennilega verða næstu ár þar sem liðið okkar er svo ungt eins og áður segir.“