Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Viljum festa okkur í sessi í úrvalsdeildinni“
Fimmtudagur 26. apríl 2018 kl. 06:00

„Viljum festa okkur í sessi í úrvalsdeildinni“

- Okkar styrkur liggur í afar samheldnum hóp sem er tilbúinn að vaða eld og brennistein fyrir félagið sitt, segir Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflvíkinga í Pepsi-deildinni

Keflavík leikur sinn fyrsta leik í Pepsi-deild karla í sumar í knattspyrnu þann 27. apríl þegar liðið mætir Stjörnunni á Samsung vellinum. Spekingar spá liðinu falli eftir eins árs veru í úrvalsdeildinni en Keflvíkingar ætla sér að afsanna þær spár. Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur svaraði nokkrum spurningum fyrir Víkurfréttir um fótboltann, sumarið og undirbúningstímabilið.

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?
Undirbúningstímabilið hefur gengið vel. Við fórum á vordögum í æfingaferð til Spánar sem heppnaðist mjög vel og var afar mikilvægur þáttur í lokaundirbúningi okkar.

Hvernig er staðan á hópnum?
Staðan er góð. Við erum að fá til baka þá leikmenn sem hafa verið meiddir þannig að breiddin hefur aukist undanfarnar vikur.

Hvert er markmið sumarsins?
Við viljum festa okkur í sessi í úrvalsdeildinni.

Ætlið þið að fá fleiri leikmenn áður en leikmannaglugginn lokar?
Þetta er leikmannahópurinn sem við, að öllu óbreyttu, verðum með í sumar.

Ykkur er spáð falli, hvað segið þið við því?
Við ætlum okkur að afsanna þá spá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Er einhver leikmaður sem þú vilt nefna sem hefur sýnt framfarir í vetur eða bindur miklar vonir við?
Í leikmannahópnum okkar eru margir ungir og efnilegir leikmenn sem er mjög viljugir til þess að læra og bæta sig sem knattspyrnumenn. Margir þeirra hafa tekið miklum framförum og verða framtíðarleikmenn Keflavíkur ef þeir halda áfram á sömu braut.

Hver er leiðtoginn í hópnum og heldur leikmönnum saman?
Marc MacAusland er fyrirliði liðsins en hann er sem betur fer ekki eini leiðtoginn. Við höfum reynda leikmenn innan hópsins sem allir eru tilbúnir til þess að gefa af sér og leiða liðið til góðra verka.

Skiptir stuðningurinn máli?
Já stuðningurinn skiptir miklu máli, það fundum við berlega í fyrrasumar þar sem við fengum frábæran stuðning. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum að fara í enn erfiðara verkefni í sumar heldur en í fyrrasumar þannig að það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar unga leikmannahóp að finna stuðning bæjarbúa.

Hver er ykkar styrkleiki?
Okkar styrkur liggur í afar samheldnum hóp sem er tilbúinn að vaða eld og brennistein fyrir félagið sitt.