Vilja skvísur í Pumasveitina
Nokkrir ungir eldhugar hafa tekið sig til og stofnað stuðningsmannasveit fyrir knattspyrnulið Keflavíkur. Ber sveitin nafnið Pumasveitin Jr. en nafnið er til heiðurs hinni sálugu Pumasveit sem lagði upp laupana fyrir nokkru síðan. Þar voru margir kunnir kappar eins og Joey Drummer og Valdimar Guðmundsson fremstir í flokki. Þeir hafa nú vikið úr vegi og yngri menn tekið við. Valþór Pétursson er einn þeirra ungu manna en hann hefur ásamt öðrum strákum rifið upp stemmninguna í stúkunni að nýju.
„Þetta hófst aðeins í fyrra en núna er ætlunin að gera þetta almennilega.“ Valþór segir að von sé á nýjum lögum frá sveitinni en nú eru ungir leikmenn að koma fram á sjónarsviðið og þeir þurfa að sjálfsögðu sín eigin lög. „Ég get nefnt sem dæmi lag sem sungið er um Frans Elvarsson, en þar er notast við Batman-lagið. Svo verðum við að gefa einhverjum öðrum lagið um Gumma Steinars,“ segir Valþór léttur í bragði. Hann segir að nú séu um 25 strákar í hópnum en stefnan er sett á að ná 50 öflugum fyrir enda sumars. Valþór segir að allir séu velkomnir og þá sérstaklega stelpurnar. „Ég hef heyrt að þeim finnist þetta hálf kjánalegt. Við reynum að hafa gaman af þessu en það væri gaman að fá skvísur í hópinn.“ Valþór vonast líka til þess að stuðningsmenn verði duglegir að taka undir með stuðningssveitinni í sumar en áður var Pumasveitin meðal öflugustu stuðningssveita landsins.
Strákarnir vilja helst mæta á alla leiki en útileikir verða oft erfiðir. „Geysir hefur lofað okkur fríum rútum fyrir hvern leik sem Keflavík vinnur, þannig að við bíðum bara eftir fyrsta sigrinum.“ Þeir
sem vilja ganga til liðs við sveitina er bent á facebook og Twitter en þar má finna upplýsingar.