Vilja leyfa æfingar að nýju
Þjálfarar í Dominos-deild karla og kvenna sendu frá sér yfirlýsingu:
Þjálfarar í Domino’s-deildum karla og kvenna sendu stjórnvöldum áskorun í dag þess efnis að þau endurskoði það algjöra æfingabann á afreks- og atvinnumannahluta körfuboltans sem nú er við líði og leyfðar verði æfingar hjá liðum í efstu deildum karla og kvenna frá 18. nóvember þegar breytingar á sóttvarnarreglum taka gildi.
Liðin segjast vera tilbúin að mæta öllum þeim kröfum sem þykja nauðsynlegar til að æfingar geti farið fram. Auk þess séu þjálfarar og leikmenn reiðubúnir að haga lífi sínu á þann hátt utan vallar að smithætta sé í algjöru lágmarki, líkt og framlínufólk hafi þurft að gera.
Íþróttin er atvinna þeirra og framtíð
Í yfirlýsingunni er bent á að atvinnuvæðing körfuboltans undanfarna tvo áratugi sé mikil og þegar hafi sérsambönd unnið sérstakt regluverk vegna framkvæmda á æfingum:
„Á undanförnum tveimur áratugum hefur fjöldi atvinnuleikmanna og þjálfara í félögum aukist til muna. Þá hefur æfingamagn aukist mikið og fleiri hafa æft íþróttina líkt og atvinnumenn, þó fjárhagsleg umbun liggi ekki alltaf að baki. Íþróttin er atvinna þeirra og framtíð, sem þeir geta ekki unnið við í dag. Þá hafa verið fluttir inn erlendir leikmenn til landsins sem sérfræðingar í íþróttinni. Þessir íþróttamenn, bæði innlendir og erlendir, æfa núorðið allt árið um kring og löng stopp sem þessi geta haft alvarlegar afleiðingar á frammistöðu þeirra í íþróttinni og þ. a. l. atvinnumöguleika á komandi mánuðum og jafnvel árum.“
Tvær sviðsmyndir
Þjálfararnir leggja til að æfingar í Domino’s-deildum karla og kvenna í körfubolta hefjist að fullu miðvikudaginn 18. nóvember næstkomandi, að uppfylltum þeim sóttvarnareglum sem settar voru á sínum tíma á lið utan höfuðborgarsvæðisins [sbr regluverk KKÍ og HSÍ frá 19. október].
Til vara setja þeir upp hugmynd að annari sviðsmynd:
Vika 1: 18. til 22. nóvember
Æfingahóp hvers liðs yrði skipt í tvennt þannig að hámarki séu tíu manns inni í íþróttasalnum í einu (æfingahópar körfuboltaliða eru um fimmtán manns). Þessir æfingahópar haldast sér og blandast ekki á milli æfinga. Auk þess yrðu æfingum hagað á þann hátt að leikmenn haldi tveggja metra fjarlægð og hver leikmaður verði með sinn æfingabúnað.
Vika 2: 23. til 29. nóvember
Sömu æfingahópar verði saman en þá verði snerting leyfð.
Vika 3: 30. nóvember til 6. desember
Æfingahópurinn má koma allur saman.
Vísir greindi frá: