Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Vildi geta lofað annarri eins flugeldasýningu
Fimmtudagur 15. maí 2008 kl. 11:19

Vildi geta lofað annarri eins flugeldasýningu

Keflvíkingar fengu aldeilis magnaða byrjun á leiktíð sinni í Landsbankadeild karla í knattspyrnu er þeir skelltu Íslandsmeisturum Vals 5-3 í opnunarleik Íslandsmótsins. Eftir fimm mínútna leik voru Keflvíkingar komnir í 2-0 með mörkum frá Símun Samuelsen og Hans Mathiesen. Kvöldi fyrir leik barst Keflvíkingum myndarlegur liðsstyrkur þegar þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Hörður Sveinsson snéru óvænt aftur frá danska liðinu Silkeborg. Báðir komu þeir inn á völlinn sem varamenn gegn Val en næstu þrjú mörk komu frá fyrirliðanum Guðmundi Steinarssyni sem skoraði tvívegis og fimmta markið gerði bakvörðurinn og harðjaxlinn Guðjón Árni Antoníusson. Víkurfréttir hittu á Hólmar Örn sem var virkilega sáttur við sigurinn á Val en býst við brjáluðum Fylkismönnum á Sparisjóðsvöllinn í Keflavík kl. 19:15 í kvöld.
 
,,Fylkismenn koma örugglega dýrvitlausir til Keflavíkur í kvöld og vilja væntanlega laga fyrir skellinn sem þeir fengu í fyrsta leik svo við verðum sjálfir að mæta grimmir til leiks,” sagði Hólmar Örn sem kvaðst ekki geta lofað annarri eins flugeldasýningu í Keflavík í kvöld og var gegn Val í fyrstu umferð. ,,Ég vildi að ég gæti lofað annarri eins flugeldasýningu en ég hef samt trú á því að við skorum einhver mörk, ég efast um að þau verði fimm því átta marka veisla er ekki oft á boðstólunum,” sagði Hólmar hress í bragði en hann gaf engum öðrum liðum á Íslandi færi á sér þegar ákvörðunin var tekin um að snúa aftur heim. Það var aldrei neitt annað inni í myndinni en að koma heim frá Danmörku og beint til Keflavíkur.
 
,,Þetta hafði gengið upp og ofan hjá okkur með Silkeborg og liðið var ekkert á leiðinni upp í úrvalsdeild en þá hafði Keflavík samband og við Hörður tókum bara vel í þetta. Keflvíkinginar voru fyrsti og eini kosturinn hjá mér, ég hefði alltaf skoðað Keflavík fyrst áður en ég ræddi við önnur félög,” sagði Hólmar og það fór ekkert á milli mála hvar hjartað slær hjá þessum knattspyrnukappa.
 
,,Það er ekki neitt markmið hjá mér að fara aftur út í atvinnumennskuna en ef eitthvað kemur upp þá þarf það að vera eitthvað mjög spennandi,” svaraði Hólmar aðspurður hvort hann yrði alla leiktíðina með Keflavík. Hvað framhaldið og spánna varðar gaf Hólmar Örn ekki mikið fyrir spánna enda Keflvíkingum spáð í 8. sæti deildarinnar. ,,Þessar spár eru bara spár. Ég velti þessu ekki mikið fyrir mér en það var bara mikilvægt fyrir okkur að byrja vel og við sýndum smá hvað við getum. Keflavík getur unnið alla og tapað fyrir hverjum sem er,” sagði Hólmar sem var ánægður með fjölgun liða í deildinni. ,,Það var tímabært að fjölga. Það vilja allir spila, ekki bara æfa og æfa.”
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024