Víðismenn til ama á Fiskideginum
Tóku heimamenn í bakaríið - Sandgerðingar töpuðu á Króknum
Víðismenn berjast ennþá við Tindastól á toppi 3. deildar í knattspyrnu en bæði lið unnu sigur í kvöld. Víðismenn voru til leiðinda á Fiskidögum á Dalvík þar sem þeir unnu 0-3 sigur á heimamönnum í Dalvík/Reyni. Dejan Stamenkovic kom Víðismönnum yfir í lok fyrri hálfleiks en þeir Helgi Þór Jónsson og Aleksandar Stojkovic innsigluðu sigur í síðari hálfleik.
Sandgerðingar voru andstæðingar Tindastólsmanna í kvöld en með sigri hefðu þeir getað gert grönnum sínum í Garði mikinn greiða. Reynismenn áttu óska byrjun og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 8. minútu. Aðeins nokkrum mínútum síðar fékk Reynismaðurinn Birkir Freyr Sigurðsson að líta rauða spjaldið og því var á brattann að sækja. Stólarnir nýttu sér liðsmuninn og náðu að skora tvö mörk til að knýja fram sigur.
Víðsmenn eru þremur stigum frá toppnum, en þeir og Tindastóll eru að stinga önnur lið af. Reynismenn eru sem stendur í fjórða sæti.