Víðismenn komnir í undanúrslit Fótbolti.net-bikarsins
Víðir vann góðan sigur á 2. deildarliði Völsungs í átta liða úrslitum Fótbolti.net-bikarsins á Nesfiskvellinum í gær. Víðismenn eru þar með búnir að tryggja sér farseðil í undanúrslitin sem verða leikin í lok september.
Fyrri hálfleikur snerist mikið um baráttu á miðjunni. Hvorugt lið náði almennilega að komast í takt við leikinn og skapa eitthvað fram á við. Staðan því markalaus í hálfleik.
Það var fljótt að breytast í þeim seinni en Víðismenn komu gríðarlega ákveðnir inn í seinni hálfleikinn og komust yfir á 49. mínútu þegar Paolo Gratton lék upp að endamörkum og lagði boltann út á Elís Má Gunnarsson sem skoraði með góðu skoti.
Skömmu síðar tók Aron Freyr Róbertsson sprett upp að endamörkum og gaf fasta sendingu fyrir markið þar sem Ari Steinn Guðmundsson þurfti rétt að koma við boltann til að ýta honum yfir línuma (53'). Staðan orðin 2:0 fyrir Víði.
Við að lenda tveimur mörkum undir reyndu Völsungar að sækja fram á við en varð lítið ágengt gegn vel skipulögðum og öguðum varnarleik Víðismanna. Þegar upp var staðið voru ekki fleiri mörk skoruð og verðskuldaður sigur Víðis í höfn.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Nesfiskvellinum í gær og ræddi við Svein Þór Steingrímsson, þjálfara Víðis, eftir leikinn. Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan og myndasafn er neðst á síðunni.