Víðismenn komnir í gang
Víðismenn unnu þriðja leikinn af síðustu fjórum í þriðju deild karla í knattspyrnu þegar þeir mættu ÍH á heimavelli sínum í gær.
Atli Freyr Ottesen Pálsson kom Víði yfir á þriðju mínútu og var það eina mark fyrri hálfleiks.
Í upphafi síðari hálfleiks tvöfaldaði Jóhann Þór Arnarson forystu heimamanna (47') og sú staða hélst þar til á lokamínútu leiksins að ÍH minnkaði muninn í 2:1 (90') en lengra komust þeir ekki og annar sigur Víðis í röð staðreynd.
Víðir situr í sjöunda sæti þriðju deildar með nítján stig en það er töluverður spölur í sæti til að komast upp, KFG situr í öðru sæti með 25 stig og á leik til góða.