Víðismenn komnir í fallsæti
Víðir lék í dag gegn Haukum í 2. deild karla. Fyrir leikinn sátu Haukar í fimmta sæti en Víðismenn í því tíunda. Þrátt fyrir að allt væri jafnt í hálfleik er skemmst frá því að segja að Haukar gersamlega gengu frá Víði í seinni hálfleik og lokatölur urðu 6:1.
Haukar byrjuðu leikinn betur og komst yfir á 15. mínútu en Björn Bogi Guðnason jafnaði metin á 21. mínútu og staðan 1:1 í hálfleik.
Staðan hélst jöfn þar til á 60. mínútu að Haukar fengu víti og komust aftur yfir.
Eftir það brustu allar varnir Víðis og Haukar röðuðu inn mörkum (64', 68', 78' og 84').
Nú er staðan orðin verulega slæm fyrir Víðismenn sem eru komnir í fallsæti þar sem lið Völsungs vann annan leik sinn í röð og er komið upp fyrir Víði. Víðir á þó leik til góða og þarf virkilega á stigum að halda ætli liðið sér að halda sæti sínu í deildinni.