Víðismenn komnir á beinu brautina
Eftir góða byrjun í 3. deild karla í knattspyrnu hefur Víðismönnum aðeins fatast flugið í síðustu leikjum, eða allt frá því að þeir höfðu sigur í nágrannaslagnum við Reyni. Víðir tók á móti botnliði ÍH um helgina og byrjunin lofaði hreint ekki góðu, gestirnir komust yfir strax á fyrstu mínútu og leiddu í hálfleik með einu marki gegn engu.
Sveini Þór Steingrímssyni, þjálfara Víðis, leist ekki á blikuna og skipti fjórum leikmönnum inn á í hálfleik sem skilaði árangri. Ísak John Ævarsson jafnaði leikinn á 67. mínútu og hann bætti um betur þegar hann skoraði sigurmarkið (78') og tryggði Víði fyrsta sigurinn í síðustu fjórum leikjum.
Reynismenn mættu Kormáki/Hvöt á Blönduósi en Reynir hafði alla sína leiki eftir tapið fyrir Víði. Leikurinn við Kormák/Hvöt endaði í markalausu jafntefli og Reynismenn sitja í öðru sæti með sextán stig. Víðir er með jafn mörg stig en lakara markahlutfall í þriðja sæti. Árbær leiðir 3. deild með sautján stig svo baráttan á toppnum er jöfn og spennandi.
Þróttur tapaði óvænt þegar þeir léku gegn Hetti/Huginn á Egilsstöðum um helgina. Þróttur komst yfir á 9. mínútu en Höttur/Huginn jafnaði leikinn skömmu fyrir leikhlé (44').
Austanmenn reyndust orkumeiri í seinni hálfleik og skoruðu tvívegis (63' og 76') og tryggðu sér 3:1 sigur. Þróttur situr í fjórða sæti 2. deildar með fjórtán stig, eins og KFA sem er sæti ofar, en Víkingur Ólafsvík og KFG eru efst með sextán stig. Þróttur tekur á móti Víkingi Ó. á miðvikudag í Fótbolti.net bikarnum.