Víðismenn í úrslit Lengjubikarsins
- Eftir sigur í vítaspyrnukeppni
Víðismenn tryggðu sér í gær sæti í úrslitum Lengjubikars C-deildar karla í fótbolta, með sigri á Álftanesi eftir vítaspyrnukeppni. Lokatölur leiksins voru 2-2 að loknum venjulegum leiktíma en Ísak Örn Þórðarson kom Garðmönnum tvisvar yfir í leiknum.
Víðir hafði svo betur í vítaspyrnukeppni, 4-3 en Tómas Pálmason, Garðar Sigurðsson, Róbert Örn Ólafsson og Einar Karl Vilhjálmsson skorðu mörk Víðismanna. Markvörðurinn Sindri Þór Skarphéðinsson sem hafði komið inná sem varamaður á síðustu mínútu leiksins, varði síðustu vítaspyrnu Álftanes og þar við sat.
Víðismenn mæta liði Berserserkja í úrslitum en sá leikur fer fram á sunnudaginn eða mánudaginn, ekki er komið á hreint hvar hann fer fram.