Víðir vann bæjarslaginn
Það var boðið upp á alvöru „Derby Match“ þegar Suðurnesjabæjarliðin Víðir og Reynir áttust við í 3. deild karla í knattspyrnu á Nesfiskvellinum í gær. Mörg ágæt færi fóru í súginn hjá hvoru liði og þegar upp var staðið höfðu heimamenn sigur með einu marki gegn engu. Víðismenn hafa nú unnið alla leiki sína í deildinni og sitja einir á toppi deildarinnar.
Eina mark leiksins leit dagsins ljós á 40. mínútu þegar Víðismenn fengu horn. Jakub Górski, markvörður Reynis, missti boltann klaufalega frá sér og Helgi Þór Jónsson var réttur maður á réttum stað og þurfti aðeins að pota boltanum yfir línuna.
Eins og við var að búast í alvöru bæjarslag þá var hvorugt lið tilbúið að láta í minni pokann og baráttan í fyrrrúmi. Reynismönnum tókst að setja mikla pressu á mark heimamanna undir lok leiks og voru í raun klaufar að skora ekki í uppbótartíma. Sama má segja um Víðismenn, þeir áttu sín færi en inn vildi boltinn ekki.
Þegar komið var að lokum leiksins fór Joaquin Ketlun Sinigaglia, markvörður Víðis, í það sem virtist vera einfalt úthlaup en missti boltann úr höndum sér. Sindri Lars Ómarsson fór á eftir boltanum en var aðeins of seinn og lenti í samstuði við Sinigaglia. Sindri hafði fengið gult spjald í fyrri hálfleik og þarna fékk hann að líta seinna gula spjaldið og þar af leiðandi fékk hann reisupassann. Reynismenn efldust við mótlætið en náðu þó ekki að setja mark að þessu sinni.
Víðismenn sitja einir á toppi 3. deildar með fullt hús stiga en Reynismenn eru í sjötta sæti með tvo sigra og tvö töp.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Nesfiskvellinum og tók meðfylgjandi myndir.